KIA

„Stjórnmálahreyfing sem ber hag landsbyggðana í brjósti“

„Stjórnmálahreyfing sem ber hag landsbyggðana í brjósti“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Á næstu dögum munu oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Í dag situr Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri, fyrir svörum, og segir okkur frá helstu stefnumálum flokksins.

Sjá einnig:

Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið

Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin

Hrafndís Bára Einarsdóttir – Píratar


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Við í Framsókn á Akureyri viljum fjárfesta í velferð barna og hækkandi lífaldur kallar einnig  á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og í þjónustu við eldra fólk. Unga fólkið er framtíð okkar og til að halda í þau og laða að fleiri íbúa þá verður að vera nægt húsnæði í boði og fjölbreytt atvinnutækifæri.  Síðast en ekki ekki síst viljum við taka þátt í að vinna að uppgangi Akureyrar sem smám saman er að breytast í litla borg með fjölbreytta þjónustu, verslun, menningu og menntun en hefur um leið kosti dreifbýlisins.

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef þið komist að í bæjarstjórn?

Stóra verkefni næsta kjörtímabils er að vanda til verka við innleiðingu á farsældarlögum barna. Mikilvægt er að halda áfram að vinna eftir aðgerðaáætlun eldri borgara sem tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf og hefja strax vinnu við næstu aðgerðaáætlun sem tekur á samþættingu þjónustu, samgöngum og húsnæðismálum.  Við viljum vinna stefnu í verðmætasköpun með atvinnulífinu, frumkvöðlum, stofnunum og ferðaþjónustuaðilum. Leggjum áherslu á vandaða og ábyrga fjármálastjórnun. Lesa má málefnaskrána í heild sinni á https://www.framsoknakureyri.is

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Það er stefna núverandi bæjarstjórnar að banna lausagöngu katta á næturnar frá og með næstu áramótum. Það er okkar mat að það sé þess virði að prufa það fyrirkomulag.

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Bærinn okkar hefur vaxið hratt á síðustu árum. Í slíkum vexti er mikilvægt að horfa til framtíðar, huga að næstu skrefum og því hvernig við viljum sjá bæinn okkar þróast. Þar munu loftslags- og umhverfismál, skipulagsmál, lýðheilsa og heilbrigðir lífshættir skipa stóran sess. Við viljum hefja vinnu við framtíðarsýn Oddeyrinnar sem býður upp á skemmtilega blöndu íbúðabyggðar, fyrirtækjareksturs, hafnarstarfsemi og þjónustu. Við viljum að nýttar séu fjölbreyttar leiðir til að tryggja nægt lóðaframboð og húsnæðisgerð fyrir alla hópa samfélagsins. Huga þarf bæði að þéttingu byggðar og skipulagningu á frekari uppbyggingu nýrra hverfa. Við setjum okkur ekki upp á móti uppbyggingu í Tónatröð en vanda þarf til verka enda skipar Innbærinn mikilvægan sess í hjörtum bæjarbúa.

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri?

Við leggjum áherslu á að þær uppbyggingar sem eru á teikniborðinu verði kláraðar með sóma, uppbygging á félagsaðstöðu í skautahöllinni og uppbygging á gervigrasvelli og stúku á KA svæði. Við viljum sjá frekari sameiningar félaga og uppbyggingu á stærri kjörnum. Skoða þarf vel nýtingu íþróttamannvirkja í nýrri íþróttastefnu og finna fjölbreyttu starfi góðan samastað.

Hver er stefna ykkar í umhverfismálum á Akureyri?

Vinna við metnaðarfulla umhverfis- og loftlagsstefnu fyrir Akureyrarbæ er langt komin og leggjum við áherslu á að klára hana. Við teljum að aukin stígagerð og að koma á frístundastrætó sé forgangsmál og muni draga úr notkun einkabílsins. Snyrtilegur bær er keppikefli fyrir okkur öll.

Hver er stefna ykkar þegar að kemur að göngugötunni í miðbænum?

Við viljum lífga upp á miðbæinn og ná betri tengingu við menningarstarfsemi bæjarins sem teygir sig frá Grófargili til Torfunefs og víðar. Við viljum sjá torg eða annan samverustað þar sem hægt er að setjast niður og njóta matar og drykkjar á sólríkum stað.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Setjum okkur ekki upp á móti því en skoða þarf umgjörðina um slíka veitingasölu meðfram undirbúningi á uppbyggingu í Hlíðarfjalli.

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

Við bjóðum til starfa fyrir bæjarbúa öflugan hóp með fjölbreyttan bakgrunn sem trúir því að mannlíf og lífsgæði blómstra þegar velferð er höfð að leiðarljósi til jafns við efnahagsleg markmið. Við erum stolt af störfum Framsóknarflokksins og má þar nefna ný lög um farsæld barna, námskeiðið Sam­vinna eft­ir skilnað – barn­anna vegna sem Akureyrarbær er að taka upp og hlutdeildarlán.  Framsókn er stjórnmálahreyfing sem ber hag landsbyggðana í brjósti eins og dæmin hafa sýnt: Loftbrú, uppbygging á flughlaði og stækkun á flugstöð, flutningur opinberra stofnana út á land, langtímasamningur við Aflið á Akureyri og lengi mætti telja. Er ekki bara best að kjósa Framsókn!

UMMÆLI