Stjörnumenn ósáttir við Akureyrarbæ og KSÍ: „Óskiljanlegt að Akureyrarbær geti réttlætt að gera ekkert í málinu“Ljósmynd: Páll Jóhannesson

Stjörnumenn ósáttir við Akureyrarbæ og KSÍ: „Óskiljanlegt að Akureyrarbær geti réttlætt að gera ekkert í málinu“

Forsvarsmenn knattspyrnuliðs Stjörnunnar eru ósáttir við Akureyrarbæ og Knattspyrnusamband Íslands eftir að Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður liðsins, slasaðist í Boganum á Akureyri um síðustu helgi.

Hilm­ar Árni meidd­ist á hné í leik gegn Þór í Lengju­bik­arn­um og ótt­ast er að um slitið kross­band sé að ræða. Stjörnumenn telja að meiðslin séu tilkomin vegna slæms ástands á gervigrasinu í Boganum.

Helgi Hrann­arr Jóns­son formaður meist­ara­flokks­ráðs Stjörn­unn­ar ritaði pist­il um aðstöðuna í Bog­an­um sem birt­ist á Fótbolta.net þar sem hann vandaði Akureyrarbæ og KSÍ ekki kveðjurnar.

„Niðurstaða màlsins er hins vegar allt önnur og alvarlegri enda sú aðstaða sem Akureyrabær skaffar langt í frá að teljast ásættanleg og í þessu tilviki hefur hún afgerandi áhrif á leikmann okkar sem er eitthvað sem ég get illa sætt mig við,“ skrifar Hrannar meðal annars.

Fjallað hefur verið ítarlega um málið á Fótbolta.net í dag og meðal annars rætt við Hilmar og Jóhann Þórhallsson, fyrrum leikmann Þórs og KA í fótbolta. Hann á þrjú börn sem æfa í Boganum.

„Mér finnst alveg óskiljanlegt að Akureyrarbær, sem ber ábyrgð á þessu, geti réttlætt að gera ekkert í málinu. Börnin mín hafa verið að æfa þarna en ég hef reynt að lágmarka þeirra áhættu með því að sjá til þess að þau séu í þannig skóbúnaði að þau festast ekki of mikið í grasinu,“ segir Jóhann meðal annars í spjalli við Fótbolta.net.

„Umræðan fór af stað í janúar þegar talað var um skemmdir á gervigrasinu og hefur verið gert við eitthvað af skemmdunum sem voru sjáanlegar. Raunin er hins vegar sú að undirlagið í heild sinni er ónýtt. Skipt var um gervigras í fyrsta sinn árið 2016 en ekki hefur verið skipt um gúmmímottuna sem er undir grasinu frá því Boginn var opnaður árið 2002,“ segir í umfjöllun Fótbolta.net.

UMMÆLI

Sambíó