Störf óháð staðsetninguAlfa Jóhannsdóttir skipar 3. Sæti á lista Framsóknar á Akureyri

Störf óháð staðsetningu

Alfa Jóhannsdóttir skrifar

Eltum hamingjuna

Ég hef verið heppin með atvinnu í gegnum tíðina – ég hef fengið tækifæri til að starfa með góðu fólki sem ég hef lært af, notið samvista við og bæði eflst og þroskast sem einstaklingur í starfi. Þegar við fjölskyldan ákváðum að elta hamingjuna og flytja aftur heim til Akureyrar á síðasta ári gerði örlítill ótti vart við sig þar sem ég gat því miður ekki flutt þáverandi starf með mér. Það sem ég fékk hinsvegar í staðinn var dásamlegt starf óháð staðsetningu, starf sem ég fæ að taka þátt í að þróa á meðan ég bý með fjölskyldunni þar sem okkur líður best. Í okkar heimabæ, Akureyri. Stefna stjórnvalda er skýr og felur í sér að fjölga störfum án staðsetningar hjá ríkisstofnunum. Auðvitað þarf ríkið að stíga fast til jarðar í þessum efnum og standa við gefin loforð, en það erum við sem færum störfin. Við, fólkið í landsbyggðunum, sem sækjum um störf óháð staðsetningu og sýnum fram á vilja til þess að starfa í okkar heimabyggðum. Störf óháð staðsetningu eru í eðli sínu byggðamál og því hljóta markmið okkar að snúa að því að styðja við atvinnustarfsemi og ríkisumsvif á atvinnumarkaði í landsbyggðunum. Það er því líka hreint og klárt byggðamál að auka aðgengi að vinnuaðstöðu fyrir þá einstaklinga sem vilja starfa óháð staðsetningu.

Erfiðir vinnufélagar

Ég er til dæmis orðin ansi sjóuð í heimavinnu eins og margir, eftir Covid-19, og er með ágætis vinnuaðstöðu við borðstofuborðið heima. Raunveruleikinn er sá að borðstofuborðið var orðið að vinnuaðstöðu og kaffitímarnir fóru í að taka úr þvottavél og ganga frá eftir matinn. Vinnufélagarnir þurftu aðstoð við heimalestur, klósett- og baðferðir. Þau þurftu knús og athygli og stundum skelltu þau hurðum eða mættu óboðin á fundi hjá mér. Þau voru líka minn eini félagsskapur – og vildu helst bara ræða Fortnite og Harry Potter. Þannig varð heimilið að vinnustaðnum mínum. Það er því mikilvægt í þeirri vegferð okkar að fjölga störfum óháð staðsetningu að huga vel að félagslega þættinum og í því tilliti hefur verið rætt um svokallaða atvinnuklasa. Þar fær starfsfólk sem starfar fjarri höfuðstöðvum stofnana sinna tækifæri til að starfa innan um annað fólk, deila aðstöðu með öðrum og þannig efla félagslega þáttinn sem er eðlilega stór hluti af menningu og upplifun í starfi.

Blómlegt atvinnu- og félagslíf

Til að einfalda flutning starfa þarf að treysta innviðina þannig að mögulegt sé að taka á móti þeim sem vilja vera um kyrrt í heimabyggð að námi lokni eða snúa aftur. Við þurfum að vera samkeppnishæf fyrir ungt fólk að loknu námi. Við viljum byggja upp svæðisborgina Akureyri og til að stuðla að enn blómlegra atvinnulífi þá þurfum við að tryggja aðgengi að húsnæði og aðstöðu fyrir einskonar atvinnuklasa. Þar getur sveitarfélagið stigið inn í með því að hvetja til og styðja við slíka uppbyggingu. Ég er heppin að hafa fengið aðstöðu í atvinnuklasa utan heimilis hér á Akureyri þar sem ég nýt félagsskapar og sameiginlegra kaffitíma með þeim sem deila með mér rými og ég þarf hvorki að hjálpa þeim á klósettið eða ræða kills í Fortnite.

Höfundur starfar sem Forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó