Stórt tap í fyrsta leik gegn KR

Tryggvi Snær stóð sig ágætlega í Frostaskjólinu í kvöld Mynd: Vísir

Þórsarar opnuðu úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld þegar þeir heimsóttu deildarmeistara KR í vesturbæ Reykjavíkur.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þó KR-ingar hafi haft yfirhöndina lengstum. Staðan í leikhléi 40-31 fyrir heimamönnum og munaði þar helst um að Þórsarar voru að skjóta virkilega illa fyrir utan þriggja stiga línuna.

Í þriðja leikhluta tóku KR-ingar öll völd á vellinum og tókst að vinna hann með níu stigum. KR-ingar því átján stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

KR-ingum urðu ekki á nein mistök í fjórða leikhlutanum og sigldu sigrinum frekar örugglega heim. Lokatölur 99-68 fyrir KR.

Atvinnumennirnir í liði Þórs, þeir Darrel Lewis og George Beamon, léku illa á löngum stundum í leiknum og ljóst að Þórsliðið þarf á meira framlagi að halda frá þeim ef ekki á illa að fara í einvíginu gegn þreföldum Íslandsmeisturum KR. Heimamennirnir í liði Þórs, þeir Tryggvi Snær Hlinason og Sindri Davíðsson stóðu fyrir sínu og voru bestu menn liðsins.

Stigaskor Þórs: George Beamon 15, Tryggvi Snær Hlinason 12/11 fráköst, Sindri Davíðsson 12, Darrel Lewis 12, Ingvi Rafn Ingvarsson 7, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Ragnar Helgi Friðriksson 5.

Stigaskor KR: Brynjar Þór Björnsson 22 , Jón Arnór Stefánsson 18 , Philip Alawoya 12, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 12, Darri Hilmarsson 8, Snorri Hrafnkelsson 8, Sigvaldi Eggertsson 7, Pavel Ermolinskij 6/15 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Þorvaldsson 3, Arnór Hermannsson 3.

Næsti leikur í einvíginu er næstkomandi laugardag í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst hann klukkan 16.

UMMÆLI

Sambíó