Prenthaus

Strætó til og frá Akureyrarflugvelli?

Flugfélag Íslands vill auka samgöngumöguleika við Akureyrarflugvöll

Flugfélag Íslands hefur farið þess á leit við Akureyrarbæ að boðið verði upp á strætóferðir til og frá Akureyrarflugvelli. Vikudagur greinir frá.

Í frétt Vikudags segir að Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, hafi ritað bréf til bæjaryfirvalda þar sem hann gagnrýnir samgöngur til og frá Akureyrarflugvelli.

„Fyrir flugfarþega er mikilvægt að góðir samgöngumöguleikar séu í boði til og frá flugvelli. Á Akureyrarflugvelli er þessum möguleikum verulega ábótavant. Engin leið SVA fer á Akureyrarflugvöll þrátt fyrir að leiðarkerfið sé töluvert umfangsmikið og nái til flestra staða bæjarfélagsins. Þá býður Strætó upp á ferðir víða um Eyjafjörð en engin tenging er við þessar ferðir við Akureyrarflugvöll. Við hjá Flugfélagi Íslands viljum hvetja bæjarráð til þess að beita sér fyrir því að úr þessum vanköntum á samgöngum við Akureyrarflugvöll verði bætt hið fyrsta,“ er meðal þess sem segir í bréfi Árna til bæjaryfirvalda.

Bæjarráð Akureyrar hefur vísað erindinu til umhverfis-og mannvirkjaráðs.

UMMÆLI