Múlaberg

Súlur Vertical með breyttu sniði vegna sóttvarnaráðstafanna

Súlur Vertical með breyttu sniði vegna sóttvarnaráðstafanna

Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram á Akureyri næstkomandi laugardag, 31. júlí. Undirbúningsnefnd Súlur Vertical hefur undanfarna daga ráðið ráðum sínum og metið hvort og þá hvernig sé hægt að halda fjallahlaupið í ljósi þróunar faraldursins og hertra samkomutakmarkana.

Nefndin metur það sem svo, að höfðu samráði við sóttvarnayfirvöld og samstarfsaðila, að mögulegt sé að halda hlaupið með ábyrgum hætti og víðtækum ráðstöfunum. Áður auglýstri dagskrá helgarinnar hefur verið breytt til þess að fylgja öllum sóttvarnareglum og fjöldatakmörkunum. Þar sem því verður við komið er gengið lengra en kveðið er á um í núgildandi reglugerð stjórnvalda, fyrst og fremst til að tryggja öryggi keppenda og starfsfólks.

Hliðarviðburðum Súlur Vertical, svo sem menningarhlaupi og krakkahlaupi í Kjarnaskógi, hefur verið aflýst auk þess sem ekkert verður af fyrirhugaðri dagskrá í endamarki í miðbæ Akureyrar. Keppendur verða beðnir um að yfirgefa svæðið eins fljótt og auðið er að hlaupi loknu.

Af öðrum breytingum og sóttvarnaráðstöfunum má nefna:

 • Hlaupið verður ræst í hópum sem hver um sig er fámennari en 100 manns. Rástímar dreifast
  því yfir lengra tímabil en upphaflega var áætlað. Flögutími gildir til úrslita. Grímuskylda er í
  rásmarki.
 • Afhendingartími keppnisgagna hefur verið lengdur til að koma í veg fyrir hópamyndun.
  Grímuskylda er við afhendingu gagna.
 • Starfsfólk drykkjarstöðva ber viðeigandi hlífðarbúnað og gætir ítrustu sóttvarna. Stefnt er að
  því að skima starfsfólk fyrir Covid-19 á föstudaginn. Keppendum er óheimilt að afgreiða sig
  sjálfir á drykkjarstöðvum.
 • Þátttakendur eru hvattir til að biðja aðstandendur um að koma ekki í rásmark né endamark.
 • Keppendur sem finna fyrir minnstu einkennum eru beðnir um að mæta ekki til leiks.

Vilji skipuleggjenda stendur hins vegar enn til þess að halda glæsilegt Súlur Vertical fjallahlaup sem
standi undir væntingum hlaupara á öllum getustigum. Að þessu sinni verður í fyrsta sinn keppt í
nýrri og mjög krefjandi 55 km vegalengd með 3.000 metra hækkun þar sem farið er meðal annars
inn Glerárdal og upp á bæjarfjöllin Súlur og Hlíðarfjall. Auk þess eru 28 km og 18 km vegalengdirnar
á sínum stað.

Mikill undirbúningur hefur átt sér stað undanfarnar vikur og mánuði og er allt að verða tilbúið.
Merkingum er að mestu lokið á öllum leiðum, brautirnar eru í góðu standi og veðurspáin er frábær.
Margir af bestu utanvegahlaupurum landsins hafa boðað komu sína í Súlur Vertical og er útlit fyrir
spennandi og skemmtilega keppni.

UMMÆLI

Sambíó