Færeyjar 2024

Sumarið er tíminn

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Nú er sko sannarlega komið sumar. Ég veit ekki með ykkur Sunnlendingana en hér norðan heiða er sólin farin að skína. Í kjölfarið lifnar yfir öllum og er eins og fólk vakni úr dvala við að fá smá sólargeisla. Sundlaugarnar fyllast, traffík í ísbúðir eykst og fólk sest út á kaffihúsum. Sumarið er sko sannarlega tíminn! En við árstíðarskiptin eru nokkur atriði sem ágætt er að hafa í huga. Þó maður hafi heyrt þetta ótal sinnum er gott að minna sig á hvert ár. Einhver sagði víst að góð vísa væri aldrei of oft kveðin.

Margir hafa ef til vill tekið eftir myndum á facebook þar sem er verið að tala um ,,summer body”. Þá er oft verið að gera grín af því að illa gangi að gera þennan sumarlíkama tilbúinn fyrir sumarið. En hvaða rugl er þetta með sumarlíkama eða bikinílíkama? Við eigum einn líkama og hann er frábær eins og hann er. Við þurfum ekki að breyta um líkamslögun þó að það verði árstíðarskipti. Eflaust tengist þetta því að yfir sumarið klæðist maður færri fötum og meira sést í bert hold. En það þýðir ekkert að maður þurfi að breyta líkamanum svo maður geti látið sjá sig í stuttbuxum.

Hvað á svo að gera í sumarfríinu? Þú ert ekki maður með mönnum nema þú sért með á áætlun ferð til útlanda, maraþonhlaup, útilegur, ættarmót og miða á útihátíðir. Það er sko ekkert sumarfrí að hanga bara heima og njóta þess sem heimabærinn hefur upp á að bjóða. Frí á að vera afslöppun, í hvaða formi sem hentar manni. Það er ekkert verra en að vera með stífa dagskrá í fríinu sínu og mæta síðan úrvinda til starfa þegar fríinu lýkur. Þess vegna langar mig að minna fólk á að það er líka allt í lagi að vera bara heima í fríinu sínu. Fara í sund, fjallgöngur, ísrúnta, útilegu í garðinum og lengi mætti telja. Það þarf ekki að fara langt eða eyða miklum pening til að njóta og eiga góða stund.

Málefni sem mér er annt um er þessi blessaða sólardýrkun. Við Íslendingar fáum svo takmarkað af elsku sólinni að við þurfum að stökkva út um leið og sést til hennar. Bæði þarf að njóta hennar en líka að ná sér í góðan lit. En hver er tilgangurinn að vera endalaust með þráhyggju um að vera í sólinni þegar liturinn er enga stund að fara? Af hverju að taka áhættu að brenna þegar það eykur líkur á krabbameini og hrukkum? Mér finnst gott og blessað að njóta þess að vera úti þegar það er gott veður. En þá á stundin ekki að snúast um að ná sér í lit heldur að njóta þess að ganga í fallegu umhverfi eða busla í lauginni. Og auðvitað skella á sér helling af sólarvörn til að hugsa vel um húðina á sér.

Að lokum langar mig að minna á notkun samfélagsmiðlana. Það er gott og blessað að nota sér þá til að eiga í samskiptum við vini og vandamenn en ekki láta allt snúast um að ná mómentum sumarsins á mynd til að geta sett þau á instagram. Láttu frekar sumarið snúast um að njóta augnablikanna sem koma upp. Enda snýst lífið að miklu leyti um það, að vera í núinu og njóta þess.

*enjoy life today, yesterday is gone and tomorrow may never come*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó