Prenthaus

Sumaropnun í Hlíðarfjalli hefst á morgun – Opið fjóra daga í viku

Sumaropnun í Hlíðarfjalli hefst á morgun – Opið fjóra daga í viku

Sumaropnun í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar hefst á morgun, fimmtudaginn 15. júlí, og verður opið fjóra daga í viku til 5. september.

Tilvalið er fyrir útivistarfólk að taka sér far upp að Strýtuskála með stólalyftunni Fjarkanum en þaðan er merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Hjólreiðafólk getur haft hjólin með sér í stólalyftuna en fjölmargar skemmtilegar hjóla- og gönguleiðir er að finna á svæðinu.

Frá brún Hlíðarfjalls má til dæmis ganga að Harðarvörðu, á Blátind, Bungu, Strýtu og Kistu eða upp að Vindheimajökli. Á góðviðrisdögum sér yfir til Mývatnssveitar og jafnvel Herðubreið blasir við ef skyggni er gott.

„Fjarkinn verður í gangi á fimmtudögum og föstudögum frá klukkan fimm til níu og á laugardögum frá tíu til sex og sunnudögum frá tíu til fjögur. Þetta er auðvitað frábært útivistarsvæði og um að gera að létta sér aðeins sporin með því að kaupa miða í Fjarkann. Ein ferð kostar 1.100 kr. fyrir fullorðna en 800 fyrir börn og svo er hægt að kaupa passsa sem gildir einn dag, helgarpassa og sumarpassa,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli.

„Við höfum orðið vör við aukna aðsókn hjólreiðafólks að svæðinu á sumrin og þá sérstaklega fólks sem er á rafmagnshjólum. Fjallgöngur og utanvegahlaup njóta einnig vaxandi vinsælda og það fer ekki fram hjá okkur. Sumaropnunin mæltist vel fyrir í fyrra og ég held að fólk sé smám saman að uppgötva þá möguleika sem þetta svæði býður upp á, flottar gönguleiðir, margbreytilega náttúru og stórkostlega fjallasýn.“

UMMÆLI

Sambíó