Svartbeltingum fjölgar hjá Atlantic Jiu JitsuSvartbeltingarnir frá vinstri til hægri: Ivan, Thomas, Jóhann, Ingþór og Adam. Ljósmynd: Brynja Finnsdóttir

Svartbeltingum fjölgar hjá Atlantic Jiu Jitsu

Fimmtudaginn 28. mars síðastliðinn fór fram gráðun hjá íþróttafélaginu Atlantic Jiu-Jitsu, þar sem Jóhann Ingi Bjarnason hlaut svarta beltið sitt í brasilísku jiu-jitsu. Félagið getur því nú státað af alls fimm svartbeltingum, sem eru: Ingþór Örn Valdimarsson, Thomas Pálsson (eigandi Atlantic Jiu-Jitsu), Ivan Jurković, Adam Brands Þórarinsson og nú Jóhann.

Hér ber að útskýra að líkt og tíðkast í fleiri bardagalistum er svokallað beltakerfi í brasilísku jiu-jitsu, þar sem iðkendur vinna sér inn mismunandi lituð belti eftir því sem þeir öðlast reynslu og hæfni í íþróttinni. Beltakerfið í brasilísku jiu-jitsu er talið sérlega krefjandi og er ekki óeðlilegt að það taki iðkendur meira en áratug að vinna sér inn svarta beltið, sem er hæsta beltið.

Jóhann Ingi hefur æft brasilískt Jiu-Jitsu í fjölda ára og var einn af stofnendum bardagaíþróttaklúbbsins Fenrir MMA, sem var heimili íþróttarinnar á Akureyri um árabil. Hann er því ekki bara fær í íþróttinni, heldur hefur hann átt mikilvægan þátt í að byggja hana upp á Norðurlandi og á Íslandi almennt. Það var einmitt hinn stofnandi Fenris, Ingþór Örn Valdimarsson, sem afhenti honum svarta beltið.

Atlantic Jiu Jitsu er eina íþróttafélagið á Akureyri þar sem þessi íþrótt er stunduð og hefur áður verið fjallað um keppnisárangur félagsins hér á Kaffinu. Þeir lesendur sem ekki þekkja til íþróttarinnar geta lesið lýsingu á henni hér að neðan sem tekin er úr fyrri greinum Kaffisins um félagið:

Brasilískt Jiu-Jitsu er form af uppgjafarglímu þar sem tveir einstaklingar takast á með það að markmiði að skora stig eða ná svokölluðu uppgjafartaki. Stig fást fyrir það að bæta eigin stöðu á kostnað andstæðingsins, t.d. með því að kasta honum í gólfið, koma sér ofan á hann eða aftur fyrir bak hans. Uppgjafartaki er náð með því að fá andstæðinginn til þess að gefast upp vegna sársauka eða óþæginda, til að mynda með kyrkingum eða handalásum. Auk þess að vera íþrótt er Brasilískt Jiu-Jitsu líka tegund sjálfsvarnar og uppistaða í öðrum bardagaíþróttum líkt og MMA.

UMMÆLI