Svekkjandi tap gegn Mexíkó

Sunna skoraði bæði mörk Íslands. Mynd: Ivan Escribano

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun á HM þegar liðið mætti Mexíkó í Skautahöll Akureyrar í dag.

Claudia Tellez kom Mexíkó yfir á sextándu mínútu en Akureyringurinn Sunna Björgvinsdóttir var snögg að svara fyrir íslenska liðið.

Í upphafi annars leikhluta kom Macarena Cruz Mexíkó aftur yfir en Sunna svaraði aftur fyrir Ísland undir lok leikhlutans. Staðan því 2-2 fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

Allt var í járnum þar til fjórum mínútum fyrir leikslok þegar Claudia Tellez skoraði annað mark sitt og þriðja mark Mexíkó. Ísland lagði allt í sölurnar við að jafna leikinn og léku án markmanns síðustu mínúturnar. Það fór ekki betur en svo að Mexíkó tókst að skora í autt markið skömmu fyrir leikslok. Lokatölur 2-4 fyrir Mexíkó.

Markaskorarar Íslands: Sunna Björgvinsdóttir 2.

Markaskorarar Mexíkó: Claudia Tellez 2, Macarena Cruz 1, Maria Chavez 1.

Sjá einnig

Ísland hóf HM með því að skora sjö

 


UMMÆLI

Sambíó