Sverre að taka skóna af hillunni?

Sverre Andreas Jakobsson. Mynd: akureyri-hand.is

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar Handboltafélags og fyrrum landsliðsmaður í handbolta, tók skóna af hillunni um síðustu helgi og lék með Akureyri í æfingaleikjum gegn ÍR og Haukum.

Sverre er í viðtali við heimasíðu félagsins í dag þar sem hann útilokar ekki að spila með liðinu þegar keppni í Olís-deildinni hefst á ný.

,,Þar sem Ingimundur og Karolis eru dottnir út og Robbi (Róbert Sigurðarson) er enn tæpur þá erum við ekki með leikmenn sem geta spilað þrist í vörn. Ég hef því verið að æfa með liðinu síðustu vikur og spilaði meðal annars þessa æfingaleiki um helgina og hafði gaman af. Það eru um tvö ár síðan ég spilaði síðast svo maður þarf tíma til að finna taktinn aftur og svo eru bara einhverjir dagar í fertugt! Hinsvegar ef ég get aðstoðað þá mun ég gera það, klárlega í ljósi stöðunnar á leikmannahópnum okkar,“ segir Sverre þegar hann er spurður að því hvort skórnir séu komnir af hillunni.

Sverre lék síðast með liðinu árið 2015 en eins og Sverre bendir á er hann að nálgast fertugt, nánar tiltekið verður hann 40 ára þann 8.febrúar næstkomandi. Hann var á sínum tíma einn af fremstu varnarmönnum Evrópu og á 182 A-landsleiki að baki.

Keppni í Olís-deildinni hefst að nýju eftir HM-pásuna þann 2.febrúar næstkomandi þegar Akureyri tekur á móti Val. Akureyri í næstneðsta sæti deildarinnar en stutt er í næstu lið fyrir ofan.

Viðtalið við Sverre má lesa í heild sinni með því að smella hér.

UMMÆLI