Prenthaus

Tækifærin í norðri

Tækifærin í norðri

Gauti Jóhannesson skrifar:

Umferð um Súez-skurðinn var leyfð á ný fyrir nokkru eftir að tókst að losa flutningaskipið Ever Given af strandstað. Hundruð skipa biðu eftir að fara um skurðinn enda er hann hluti af einni mikilvægustu siglingaleið heims. Þessir atburðir í Egyptalandi hafa dregið athyglina að alþjóðlegum siglingum og flutningsleiðum.

Þingmannanefnd um norðurslóðamál á vegum utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem nýlega lauk störfum bendir á að með minnkandi hafís í norðurhöfum skapist væntingar um opnun siglingaleiða sem falið geta í sér tækifæri fyrir Ísland. Miklu skiptir að við skoðum slík tækifæri með opnum huga en gætum þess um leið að sjálfbærni og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi.

Sjá einnig: Áfangastaðir framtíðarinnar

Í Finnafirði er fyrirhugað að vinna að uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar og þjónustu- og iðnaðarsvæðis. Staðsetning hafnarinnar mun stytta alþjóðlegar siglingaleiðir, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tengja saman austurströnd Bandaríkjanna og Asíu. Samstarfssamningur Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska fyrirtækisins Bremenports og verkfræðistofunnar EFLU um verkefnið var undirritaður fyrri hluta árs 2019. Hér er um gríðarstórt verkefni að ræða sem, ef af verður, mun án efa fjölga fjölbreyttum tækifærum á Norður- og Austurlandi og efla og treysta byggðina. Nái ýtrustu hugmyndir um starfsemi í Finnafirði fram að ganga er ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á Norðausturlandi öllu og jafnvel víðar og fjölga tækifærum til nýsköpunar og verðmætasköpunar af ýmsu tagi á svæðinu.

En jafnvel þó af fyrirhuguðum framkvæmdum verði ekki er ljóst að opnun siglingaleiðarinnar felur í sér ótal sóknarfæri fyrir norðurslóðaríkið Ísland. Á Norður- og Austurlandi eru öflugar hafnir sem geta bætt við sig verkefnum. Mikil tækifæri felast í fyrirsjánlegum orkuskiptum hjá kaupskipaflota heimsins og þörf fyrir græna orku kemur til með að gera kröfur til innviðauppbygginar og fjárfestinga á því sviði. Styttri flutningsleiðir opna tækifæri til fjölbreyttari útflutnings og möguleikar í ferðaþjónustu og farþegaflutningum aukast.

Nú er lag fyrir Ísland og Norðausturland að festa sig í sessi sem miðpunktur samgangna og samstarfs á norðurslóðum með Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á landinu. Af því tilefni er rétt að minna á að hlutverk stjórnvalda er að styðja við en ekki standa í vegi fyrir þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja grípa þau tækifæri sem í þessari þróun felast.

Höfundur, er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og býður sig fram í oddvitasæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar árið 2021.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó