Prenthaus

„Það er algjörlega þess virði að eyða frídegi í þetta, já eða mæta þreyttur í vinnu“

„Það er algjörlega þess virði að eyða frídegi í þetta, já eða mæta þreyttur í vinnu“

Um 113 milljónir manns víða um heim horfðu á Ofurskál bandaríska fótboltans á aðfaranótt mánudags. Margir Íslendingar horfa á viðburðinn þrátt fyrir að hér á landi byrji leikurinn ekki fyrr en 01.00 og standi langt fram á nótt. Sindri Már Stefánsson hélt veislu með vinum sínum á Akureyri annað árið í röð og segir að það stefni í að þetta verði hefð hjá hópnum.

„Þetta er annað árið í röð sem þessi tiltekni hópur hittist og gerir eitthvað extra úr þessu, þannig að þó svo að hefðirnar séu kannski ekki orðnar mjög sterkar ennþá þá erum við strax farnir að hugsa hvernig við getum toppað þetta á næsta ári með fleiri skreytingum, fatnaði og veitingum,“ segir Sindri í spjalli við Kaffið.is.

Sindri segir alla stemninguna í kringum leikinn vera frábæra og að þrátt fyrir að dagurinn eftir geti orðið erfiður, sé það þess virði að vaka og horfa á skemmtunina.

„Ég viðurkenni það að mánudagurinn er oft erfiður eftir þetta en í ár vorum við allir búnir að græja okkur frí frá vinnu. Það er algjörlega þess virði að eyða frídegi í þetta, já eða mæta þreyttur í vinnu, ef áhuginn á íþróttinni er svo mikill að mínu mati,“ segir hann.

Hann segir það vera lykilatriði þegar horft er á Ofurskálina að vera með góðar veitingar. Hópurinn hittist snemma á sunnudeginum fyrir leik og byrjar að undirbúa matinn.

„Það er mikilvægt að vera með nóg af allskonar kjúklingavængjum og bandarískum „piss“ bjór. Svo þarf að vera með nóg af mönsi, svo ég sletti smá. Snakk, ídýfur, nammi, já og svo erum við með vindlana góðu. Svo horfum við á aðrar íþróttir og spilum pílu á meðan við bíðum eftir upphituninni fyrir Ofurskálina á Stöð 2 Sport.“

Philadelphia Eagles og Kansas City Chiefs mættust í leiknum um Ofurskálina í ár og að lokum stóðu Kansas City Chiefs, með Íslandsvininn Patrick Mahomes fremstan í fararbroddi, uppi sem sigurvegari eftir ótrúlega fjörugan leik. Tónlistarkonan Rihanna sá svo um skemmtunina í hálfleik.

„Við vinirnir vorum í raun allir nokkuð hlutlausir í leiknum í ár, en hölluðumst allir svona 55-45 í Eagles áttina. Þannig við vorum í rauninni bara allir hrikalega ánægðir að fá fràbæran leik. Sem var í raun það sem stóð uppúr, alvöru sóknarleikur og nóg af stigum á töfluna. Gefum Rihönnu verðskuldað lof líka,“ segir Sindri.

Sambíó

UMMÆLI