Það eru ekki alltaf jólin!

Það eru ekki alltaf jólin!

Það kemur líka janúar.

Það er gjarna haft á orði þegar okkur gengur ekki vel eða við lendum í einhverskonar hremmingum, að það séu ekki alltaf jól. Við verðum til dæmis mjög svo meðvituð um þennan sannleik í janúar þegar hversdagsleikinn kemur askvaðandi í kjölfar hátíðanna, svona eins og Soffía frænka í Kardimommubænum og minnir okkur á að gleðinni sé lokið að sinni. Enginn árstími býður upp á jafn harkaleg umskipti eins og janúar.  Ljósin og skrautið eru tekin niður, sparifötin sett inn í skáp og mataræðið dettur snögglega í hversdagslega hollustu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hætta samskiptamiðlarnir að bjóða upp á ljúfar myndir af logndrífum, heitu súkkulaði og arineldum og glaðleg jólatónlistin þagnar.  OG það er ennþá dimmt hér á norðurhveli,- dimmt þegar við vöknum og dimmt þegar við komum heim úr vinnunni. Engir frídagar í janúar, bara hversdagsleiki a.m.k. til bóndadags.

Við hjónin höfum eytt frístundum frá jólum í að leita okkur að nýju salerni, hvað er meira viðeigandi í þessum mánuði móralskra timburmanna? Við erum orðin sérfróð í skolbrúnum, vatnsnotkun, s og p stútum og setum, -mjúkum, hörðum, hæglokandi eða kúptum. Fyrir utan að finna eitt eintak á 750 þúsund krónur sem þvær manni og þurrkar og klappar á bossann. Þetta hefur verið áhugavert og fróðlegt en ekki eins skemmtilegt eins og að kaupa jólagjafir,-alls ekki. En þetta minnir okkur þó á það hversu gott hlutskipti okkar er og hvernig hversdagslegir hlutir leggja allan grunn að lífsgæðum, jafnvel þótt ekki séu alltaf jól.

Himinninn undanfarið hefur skartað öllum sínum fegurstu litum í þíðviðrinu og engir kínverskir flugeldar geta keppt við þá skrautsýningu. Náttúran í kring um okkur er ókeypis og jafnvel bara það að fara út á meðan það er bjart og gera ekkert nema standa og horfa og anda,- getur aukið okkur slökun og gleði. Eða við getum nýtt okkur heita vatnið,-önnur lífsgæði íslendinga, -og farið í sund.

Svo má líka lesa allar fínu bækurnar sem komu út fyrir jólin (ókeypis útlán á bókasafninu)  það má horfa á bíómyndir sem við misstum af um jólin, og það er meira að segja ekki bannað að bjóða heim gestum í janúar. Elda góðan mat og njóta þess að vera til.

Við gætum tekið sólina okkur til fyrirmyndar og fikrað okkur hægt og rólega upp á við. Í stað þess að einhenda okkur í ræktina til að taka á því með góðu eða illu, gætum við farið mjúku leiðina eða í öllu falli fundið þá leið sem fer vel með okkur og gerir okkur glöð.  Það liggur ekkert á og það er heilt ár til næstu jóla.

Við höldum stundum að góð markmið séu þau sem ögra okkur svo hressilega að þau kosti helst helling af eymd og erfiðleikum að ná þeim, en það eru reyndar slæm markmið. Góðu markmiðin eru þau sem við ráðum við og auka okkur gleði og andlegan styrk. Janúar ert.d. frábær mánuður til að einbeita okkur að slíkum markmiðum.

Við hér ætlum að taka ársbyrjun í að gleðjast yfir nýju salerni heimilisins, það er aldeilis ekki lúxuseintak með þvotti og blæstri en gerir sitt gagn. Alveg eins og janúar.

Góðar stundir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó