Færeyjar 2024

Þarf að vera launalaus þar til dagvistun fæst – „Það eru margir í sömu stöðu“

Það hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið að mikill skortur sé á dagvistunarúrræðum fyrir ung börn á Akureyri. Margir foreldrar eru í vandræðum með að brúa bilið á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og þar til að barn kemst inn á leikskóla. Það bætir síðan gráu ofan á svart hve mikill skortur er á dagmæðrum í bænum og eru þær flestar með mörg börn á biðlista. Hvenær börn eru fædd á árinu getur skipt miklu máli í því, hve langt þetta bil er sem þarf að brúa, því yfirleitt taka dagmæður helst inn ný börn á haustin þegar þau sem fyrir voru, fá leikskólapláss.

Áður hefur verið fjallað um skort á leikskólaplássum á Akureyri en það gæti orðið svo að börn fædd í upphafi árs 2016 fái ekki pláss fyrr en um 2,5 ára aldur. Mikil óánægja ríkir meðal foreldra á Akureyri vegna þessa.

Í nýútgefinni skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði hér á landi kemur fram að að ekki ríki jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi á milli sveitafélaga. Fram kemur einnig að Ísland skeri sig frá hinum Norðurlöndunum hvað það varðar að ekki eru lög um frá hvaða aldri börn eiga rétt á dagvistun. Í frétt Rúv er fjallað ítarlega um skýrsluna.

Sigurður og Alda ásamt börnum sínum

Kaffið ræddi við Öldu Ýr Guðmundsdóttur, 25 ára móðir á Akureyri, en hún hefur áhyggjur af því að hvenær hún geti fengið dagvistunarúrræði fyrir son sinn, Guðmund Rafn, sem er fæddur í janúar á þessu ári. Í haust, þegar að flestar dagmæður taka inn ný börn, verður sonur hennar aðeins rúmlega 7 mánaða gamall en ekki eru í boði niðugreiðslur hjá dagmæðrum fyrr en við 9 mánaða aldur. Það hentar fjölskyldunni því illa, bæði vegna þess ungs aldurs hans þá og vegna skorts á niðurgreiðslu.

Alda dreifði fæðingarorlofsgreiðslum sínum á 9 mánuði og á maki hennar, Sigurður Már þá inni 2 af sínum 3 mánuðum þegar að fæðingarorlofi Öldu lýkur. Sonur þeirra verður því 11 mánaða þegar að fæðingarorlof þeirra beggja er uppurið. „Hann á tvo mánuði inni sem við getum nýtt þegar ég er búin í fæðingarorlofi en þar sem ég er mun tekjulægri en hann borgar það sig varla.

Til þess gæti því komið að Alda verði launalaus heima með drenginn  þar til þau fá dagvistun fyrir hann. Alda og Sigurður eiga fyrir tæplega fjögurra ára dóttur og þurfa því eðlilega að hafa stöðuga innkomu til þess að geta rekið heimilið. „Við erum á bið hjá nokkrum dagmömmum um að komast inn í kringum áramót. Miðað við svörin sem við höfum fengið þá eru margar á bið fyrir svipaðan tíma sem segir manni að það eru margir í sömu stöðu,“ segir Alda Ýr en er ekki bjartsýn þar sem það er ekki mjög algengt að pláss losni hjá dagmæðrum á þessum tíma árs.

Fjölskyldan veit ekki hvenær þau mega búast við að Guðmundur Rafn komist inn á leikskóla en halda í vonina að núverandi ástand verði til þess að róttækar breytingar verði gerðar í málaflokknum svo aðrir núverandi og tilvonandi foreldrar þurfi ekki að lenda í sömu stöðu.

Sjá einnig:

Leikskólamálin í bænum okkar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó