Þarf ekki að stíga á bremsuna!

Þarf ekki að stíga á bremsuna!

Sigurður Guðmundsson skrifar:

Nú undanfarið hefur verið ritað og rætt mikið um hversu illa Akureyrarbær sinnir íþróttafélögum. Nokkuð er til í þessu og er kannski kominn tími til að ræða orsakir þess. Bærinn gerir þetta þó ágætlega með fjölbreyttari aðstöðu til íþrótta en gerist og gengur ef við berum okkur saman við sambærileg sveitarfélög. Sveitarfélögin sem við lítum til er Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær og Reykjanesbær.

Hér er skautahöll sem er ekki í öðrum sveitarfélögum, við höfum Hlíðarfjall sem önnur hafa ekki heldur taka þau þátt í sameiginlegum kostnaði við reksturinn á skíðavæðum nálægt höfuðborgarsvæðinu. Aðstaða til bílaíþrótta og siglinga stendur framar öðrum. Aðstaða til hópíþrótta er í lagi en ekki ef tekið er tillit til þeirrar miklu samkeppni sem ríkir í hópíþróttum almennt. Þar hefur Akureyrarbær tvimælalaust gefið eftir.

Það er frekar auðvelt að úthúða bæjarstjórn fyrir laka frammistöðu í málaflokknum. Er það einföldun mikil og lýsir oft fákunnáttu viðkomandi. Þeir mega taka það til sín sem eiga. Rörsýn á málaflokkinn án þess að skilja hvers vegna bærinn gerir ekki betur.

Útgjöld Akureyrarbæjar eru töluvert frábrugðin þessum sveitarfélögum sem við erum alltaf að bera okkur saman við. Sumt er til dæmis ekki hægt að bera saman. Einsog til dæmis frír Strætó á Akureyri. En þetta er samt ekki stóra málið. Það eru ekki einungis íþrótta og tómstundarmál sem líða fyrir þennan vanda. Skólakerfið okkar er með engu móti hægt að bera saman við önnur sveitarfélög. Niðurstöður rannsókna sýna svart á hvítu að menntun barna á Akureyri er lakari heldur en barna á höfuðborgarsvæðinu.

Vandi Akureyrar liggur ekki í nísku eða umhyggjuleysi fyrir fólki sem stundar íþróttir á Akureyri. Heldur liggur hann í skiptingu útgjalda eftir málaflokkum.

Förum þá beint í kýlið sem stendur fyrir frekari framþróun í málaflokknum. Útgjöld til félagsþjónustu og menningarmála er langt yfir þeim mörkum sem eðlilegt má teljast. Menningarmálin er erfitt við að eiga þar sem tvennt kemur til. Menningarhúsið Hof og Listasafnið. Steinsteyptir kumbaldar sem kosta okkur óheyrilegar fjárhæðir á ári. Við eyðum tvöfalt til þrefalt meira en önnur sveitarfélög í málaflokkinn. í kringum 5% af heildarútjgöldum. Þegar önnur eru 1-2%. Ég hef akkúrat engar lausnir til að bregðast við því. Gjafir sem okkur voru færðar sem útgjaldabyrði til framtíðar.

Félagsþjónustan er það sem hægt að að bregðast við. Þar er stóri vandinn sem enginn þorir að taka á. Menn almennt ræða hann ekki sem er fádæma tepruskapur. Hér eru tölur sem sýna hlutfall skatttekna okkar í málaflokka félagsþjónustu og rekstur grunnskóla. Fyrri talan er félagsþjónustan og sú seinni rekstur grunnskóla.

-Akureyri . 24% 28%

-Kópavogur. 14% 34%

-Hafnarfjörður. 18% 35%

-Garðabær. 15% 34%

-Reykjanesbær. 11% 29%

Þetta er slándi. Er það virklega svo að við getum sætt okkur við að fjórðungur útgjalda bæjarins komi niður á skólastarfi. Þetta er auðvitað ekki hægt til lengdar. Einhverjir munu eflaust hrökkva við þessar tölur. Saka mig um umhyggjuleysi, fordóma gagnvart þeim sem minna mega sín og frameftir götunum. Og enn á þessi þvættingur að halda áfram. Í þriggja ára áætlun bæjarins er útgjaldaaukning til félagsþjónustunnar og menningarmála umfram aðra málaflokka. Er þetta hægt? Hversu margar félagslegar íbúðir á bærinn að eiga? Fjöldi þeirra er langt umfram það sem eðlilegt getur talist og erum við að glíma við sama vanda og höfuðborgin. Við öxlum ábyrgð nágranna okkar og norðurlands alls.

Ég held að það sé orðið tímabært að bæjarfulltrúar ræði opinskátt um þennann vanda. Það er löngu kominn tími til að stappa niður fæti og stöðva þennan útgjaldaleka sem er stjórnlaus. Þar er við kjörna fulltrúa að sakast. Til að takast á við þetta þarf að vera með bein í nefinu. Þegar það gerist er hægt að setja fé í málaflokka sem eru fjársveltir og við getum gert bæjarfélagið að því sem við viljum að það standi fyrir.

Öll lífsins gæði!

Góðar stundir

UMMÆLI