Þegar Filippus gæddi sér á soðinni smálúðu á Akureyri

Þegar Filippus gæddi sér á soðinni smálúðu á Akureyri

Filippus prins (1921-2021) kom til Akureyrar þann 1. júlí árið 1964. Prinsinn kom fljúgandi frá Reykjavík með Gullfaxa, Dakotaflugvél Flugfélags Íslands, í hellirigningu ,,einhverja þá mestu sem gert hefur á Akureyri í sumar” eins og segir í Morgunblaðinu. Vélin lenti á Akureyrarflugvelli kl. 20:00. Frá flugvellinum lá leiðin í Lystigarðinn þar sem mikill mannfjöldi beið þess að hitta prinsinn. Vel lá á honum. Forseti bæjarstjórnar, Jón G. Sólnes bauð gestinn velkominn sem í beinu framhaldi sagði nokkur orð.

„Þið afsakið að ég tala hér ensku, en ég notaði allan íslenzkuforðann minn í Reykjavík í gær. Ég þakka ykkur fyrir þessar hlýju móttökur og ég er mjög glaður yfir því að vera kominn til Akureyrar — og líka heppinn — því veðrið er nú ekki gott til flugs. Þið verðið að fyrirgefa að ég skuli vera svona seinn, en þó við mennirnir séum meistarar yfir mörgu, þá ráðum við ekki veðrinu. Ég bið ykkur enn afsökunar á því að ég skuli vera síðbúinn, og að þið skuluð vera hér regnvot. Ykkur tíl huggunar get ég þó sagt, að það rignir líka mikið á Bretlandi. Þökk fyrir.“

Filippus skoðaði sig um í garðinum, lengur en gert hafði verið ráð fyrir og blandaði geði við bæjarbúa. Hann spjallaði við gesti og gangandi m.a. við Lundúarbúann fyrrverandi og trésmiðinn Roy Pritlove sem hafði búið hér á landi í áratug. Hann var mættur til að berja prinsinn augum. Eftir heimsóknina í Lystigarðinn hófst kvöldverðarsamkvæmi í boði bæjarstjórnarinnar til heiðurs hinum tigna gesti. Prinsinn gæddi sér á soðinni smálúðu og hreindýrasteik með jarðeplum og grænmeti. Til viðbótar var boðið upp á ostabakka með blönduðu kexi og kaffi. Samkvæminu lauk klukkan 23:00 en eftir það hélt Filippus af stað í Mývatnssveit ásamt fylgdarliði.

Heimildir: Grenndargralið

Fjöldi Akureyringa beið eftir Philip prins í hellirigningu. (1964. 2. júlí). Morgunblaðið, bls. 1& 3.

Sambíó

UMMÆLI