NTC netdagar

„Þessi veikindi eru alvarleg og erfið viðureignar“

Andri Þór Ólafsson er þrítugur Akureyringur og einn þeirra fjölmörgu sem leggur átaki Krafts, stuðningsfélags, lið með því að birta skilaboð opinberlega. Andri er tónlistamaður en eiginkona hans greindist fyrst með krabbamein 2013.

„Konan mín gekkst þá undir aðgerð og var meinið skorið í burtu. Um var að ræða krabbamein í leghálsi en svo tæpum 5 árum síðar greinist hún með krabbamein í annað sinn og þá í eitlum í mjaðmagrind. Hún fór í lyfja- og geislameðferð í október sem bar ekki tilætlaðan árangur og er hún í nýrri lyfjameðferð núna,“ segir Andri aðspurður um stöðuna og bætir við að enn sé krabbameinið flokkað sem leghálskrabbamein þó það sé í eitlum í mjaðmagrindinni. „Við vonumst til að þessi meðferð beri árangur en þessi veikindi eru alvarleg og erfið viðureignar.“

Aðspurður um hvernig hann hafi tekið þessum tíðindum segir hann: „Þegar einhver nákominn þér greinist með krabbamein, sérstaklega maki,  þá breytast allar forsendur í þínu lífi og þú þarft að taka ákvörðun um það hvort þú ætlar að taka þennan slag eða ekki.  Krabbamein fer ekki í neitt manngreinarálit en þegar einhver svona nákominn veikist þá hefur það eðlilega áhrif á allt. Nú eigum við eina stelpu og það er bara þannig að þegar svona alvarleg veikindi steðja að þá hefur það áhrif á alla fjölskylduna og það erum VIÐ sem erum að díla við krabbamein en ekki bara sá krabbameinsgreindi. Þetta er verkefni sem er mjög erfitt og þá gildir hið forkveðna: Það þurfa allir að standa saman. Það sem ég vil að fólk átti sig á er að það eru allir að díla við þetta ekki bara sá veiki – það eru allir lasnir.“

Þau hjón segjast fljótt hafa áttað sig á að þegar svona veikindi steðja að séu það litlu hlutirnir sem skipti máli. „Bara það að geta vaknað saman á morgnana og fara saman að sofa á kvöldin fer að skipta aðeins meira máli heldur en það hefur gert síðastliðin tíu ár. Skyndilega fer að vera gaman að fara í IKEA sem er samt sá staður sem ég hata mest í lífinu. Svona breytist gildismatið,“ segir Andri og heldur áfram:

„Þú verður líka að finna einhverja leið til að díla við þetta og það sem ég hef alltaf haft að leiðarljósi er að halda mér eins rólegum og ég get. Um leið og þú ferð að ofhugsa allt, því það er svo stutt í að þú farir fram úr sjálfum þér, þá er bara að halda rólegheitum heima og í vinnu.“

Andri segist hafa frétt af Krafti því kona hans þekki systur krabbameinsveiks manns sem er eiginmaður formanns félagsins. „Í fyrra skiptið sem konan mín greindist vorum við bara að fást við þetta ein og vorum bara í angist okkar ein heima. Þá var um að ræða legnám og þá vorum við að  syrgja eitthvað líf sem ekki varð. En nú er þetta alvarlegra og nú ætlum við að nýta okkur öll þau úrræði sem félagið hefur uppá að bjóða. Fólk í þessari stöðu er undir miklu álagi og þarf hjálp – það er bara svoleiðis.“

Að endingu vill Andri minna á yfirskrift átaksins „Krabbamein kemur öllum við“ og um leið vekja athygli á að allir geti greinst með krabbamein.

 

Sambíó

UMMÆLI