„Þetta á að vera gaman“LYST

„Þetta á að vera gaman“

Reynir Gretarsson hefur síðustu tvö ár rekið staðinn LYST í hjarta Lystigarðsins. Undanfarið hefur hann markvisst unnið að því að festa staðnum sess á Akureyri sem viðburðarstað.

Undanfarna mánuði hefur LYST staðið fyrir ýmsum viðburðum, svo sem pöbb kvissum, uppistöndum, vörukynningum og hinum ýmsu tónleikum. Meðal þeirra sem hafa spilað á LYST eru stór nöfn líkt og Valdimar og Una Torfa en Reynir hefur líka lagt sig fram um að á LYST fái grasrótar tónlist að líta dagsins ljós og hefur margt tónlistarfólk og margar hljómsveitir haldið þar sína fyrstu, eða einn af sínum fyrstu tónleikum: “Við Akureyringar erum stundum ekki nógu dugleg að gefa fólki séns ef það er ekki nógu stór nöfn”

Reynir viðurkennir að til að byrja með hafi fjárhagur verið ein af ástæðunum fyrir því að LYST fór út í að halda slíka viðburði, en að þau hafi fljótt uppgötvað hversu skemmtilegt og gefandi viðburðarhald getur verið. Í dag segir Reynir að markmiðið sé einfaldlega að þegar fólk vilji bregða sér út á fimmtu-, föstu- eða laugardagskvöldi hugsi það með sér “hvað er um að vera á LYST?” Þar að auki hafi ungt tónlistarfólk verið þeim þakklátt fyrir tækifærið til að stíga fram og bæjarbúar almennt verið ánægt og hvatt þau áfram til frekara viðburðahalds.

LYST er þó ekki enn einn skemmtistaðurinn, þvert á móti. Reynir leggur áherslu á það að á LYST sé verið að færa líf í Lystigarðinn og í menningarlíf á Akureyri almennt, ekki bjóða upp á annan stað til að djamma. Hann segir það gott og blessað að bregða sér út á lífið, en að það þurfi ekki alltaf að „fara á djammið“ eða drekka sig fullan til þess að fara á tónleika eða uppistand og jafnvel fá sér drykk eða tvo.

Reynir er hvergi nærri hættur viðburðarhaldi og segir hann að allt stefni í stórt og viðburðarríkt sumar á LYST. Jafnvel á veturna er þó alltaf nóg um að vera, en síðustu fjórar helgar hefur eitthvað verið um að vera og nú um helgina verða haldnir tónleikar með tónlistarkonunni Gugusar og tvíeykinu KUSK og Óvita. Frekari upplýsingar um tónleikana og miðasölu er hægt að finna með því að smella hér og upplýsingar um viðburði í uppsiglingu er hægt að finna á heimasíðunni lyst.is.

UMMÆLI

Sambíó