,,Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu“

777983Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sviðshöfundur, mun í dag flytja þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri klukkan 17. Fyrirlesturinn er undir yfirskriftinni ,,Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu.“ Hún mun fjalla um tilurð verka sinna og lýsa hugmyndafræðinni að baki þeim og veita þannig innsýn í starfsaðferðir sínar sem sviðshöfundur. Einnig mun hún ræða um áhrifavalda sína og það sem henni þykir nauðsynlegt í sköpun. Aðgangur á fyrirlesturinn er gjaldfrjáls.

Ragnheiður hefur starfað á ýmsum sviðum leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, leiksýninga og innsetninga bæði á Íslandi og erlendis. Ragnheiður Harpa stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað útvarpsleikrit, gefið út smásögur og vinnur nú að ljóðahandriti sem verður frumflutt á ljóðahátíð í Istanbúl í haust.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður og Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó