Prenthaus

Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Róbert Freyr Jónsson

Ég er fæddur og uppalinn Dalvíkingur. Á uppvaxtarárum mínum leitaði maður nokkuð oft til Akureyrar. Hvort sem það var til að skemmta sér eða nota þá sérfræðiþjónustu sem þar er til staðar. Það var gott að alast upp við frelsið á Dalvík, það hafði enginn áhyggjur af því hvar maður var eða hvað maður var að gera. Maður var bara úti allan daginn og lét sjá sig í matmálstímum.

Ég flutti til Akureyrar þegar ég fór í VMA á unglingsárunum. Smátt og smátt fór mér að líka betur og betur við Akureyri. Fallegur bær, skemmtilega lítill en þó nógu stór til að vera með allt sem maður þarf. Trjágróðurinn í bænum hefur alltaf heillað mig og hér var líka betra veður en á Dalvík. Sólin staldrar lengur við. Hér voru ýmis tækifæri sem ég var duglegur að nýta mér, fjölbreytt atvinnulíf og fullt af góðu fólki. Fólk sem hjálpar manni að þrífast og dafna í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Hvert verkefni varð skemmtilegra og skemmtilegra og hvert sem maður snéri sér voru einstaklingar sem hjálpuðu manni. Stundum tók maður verkefni að sér sem maður hafði litla sem enga þekkingu á eins og að gera við tölvur á tölvuverkstæði Tæknivals. En með góðra vina hjálp var maður komin upp á lag við það á örstuttum tíma.

Ég kynntist konunni minni rétt fyrir aldamótin og saman eigum við tvær yndislegar dætur. Það er hreint út sagt æðislegt að ala upp börn hérna. Það er svo mikil gróska í tómstundarlífinu og hver og einn getur fengið að dafna í því sem hann vill. Önnur dóttir mín hellti sér í listaheiminn og er að mála á meðan hin er að spila á þverflautu og æfir dans. Það er varla hægt að hafa það mikið betra. Við fjölskyldan höfum eins og margir aðrir Íslendingar spáð í að flytja til útlanda. Hugsanlega hefðum við látið verða af því nema það er eitthvað sem heldur í mann hérna á Akureyri. Það er eitthvað öryggi, staðfesta og hér líður manni vel. Ætli það sé ekki bara staðreyndin að „Hér er best að búa“.

Róbert Freyr Jónsson skipar 13. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri.

UMMÆLI

Sambíó