„Þetta unga fólk í dag kann ekkert og veit ekkert“

Óðinn Svan skrifar

Óðinn Svan skrifar

Einhverra hluta vegna snúast flest mín pistlaskirf um það sem fer í taugarnar á mér og í að þessu sinni verður engin undantekning á því. Tilgangur þessa blessaða lífs okkar virðist nokkuð óráðinn og sitt sýnist hverjum. Í mínum huga er þetta nokkuð einfalt og skýrt. Að búa til annað eintak af sjálfum mér og viðhalda þannig þessu teiti sem kallast líf.

Það að framleiða annað eintak er sem betur fer í flestum tilfellum lítið mál. Það er það sem á eftir kemur sem skiptir mestu máli. Eintakið sem þú færð í hendurnar er ósjálfbjarga og það er undir þér komið að búa til einstakling sem verður samfélaginu til gagns og gamans.

Allt frá því ég man eftir mér hefur manni verið tjáð, af þeim sem eldri eru, að allt hafi verið betra þegar sú kynslóð ólst upp. Allir voru svo rosalega nægjusamir og duglegir í gamla daga. „Aldrei sjónvarp á fimmtudögum“ og „ég fékk sko bara epli á jólunum.“

Nú sér mín kynslóð um þetta mikilvæga hlutverk, að halda teitinu gangandi. Börnin læra víst það sem fyrir þeim er haft og svo virðist sem okkar kynslóð sé aftur bæði duglegri, nægjusamari og betri í alla staði en sú sem er að slíta barnskónum núna.

Við erum komin í sama pakka og þau sem ólu okkur upp. Allt var betra áður en þessi helvítis snjallsímar komu. „Við lékum okkur sko úti og með dót“ og  „ég þurfti sko að labba á æfingu.“

Afhverju þarf hver einasta kynslóð að líta á sig sem merkilegri og duglegri en sú sem hún skapar? Ég hef unnið mikið með unglingum undanfarin ár og get staðfest það að ungmenni í dag eru í lang flestum tilfellum vel upplýst, heilbrigt og duglegt fólk.

Best væri ef við gætum lagt þennan leiðinlega ávana til hliðar og hætt þessu niðurrifi því hvort sem það er satt eða ekki þá er það engum til gagns.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó