Þór/KA æfa á Tenerife

Þór/KA æfa á Tenerife

Um 30 manna hópur frá Þór/KA hélt utan til Tenerife í gær þar sem meistaraflokkur liðsins verður í æfingabúðum næstu vikuna.

Upphaflega var áætlað að dvelja í æfingabúðum í Guildford í útjaðri London, en vegna óvissu í Englandsfluginu hjá NiceAir var ákveðið að breyta ferðinni og varð Tenerife fyrir valinu.

„Grundvallaratriði var að fljúga með NiceAir beint frá Akureyri og þar var Tenerife einn af þremur valkostum, ásamt Rotterdam og Kaupmannahöfn. Einn möguleiki var að fljúga til Hollands eða Danmerkur og þaðan áfram til London og halda okkur við upphaflegu æfingabúðirnar, en það reyndist of kostnaðarsamt. Tenerife var mest spennandi og með hjálp starfsfólks Ferðaskrifstofu Akureyrar tók ekki langan tíma að finna gott æfingasvæði og hótel í grendinni. Það þurfti ekki langa yfirlegu til að taka ákvörðun um að halda suður á bóginn,“ segir á vef Þór/KA

Hópurinn var mættur á Akureyrarflugvöll um sexleytið í gærmorgun, en brottför frá Akureyri var klukkan 7:45. Liðið verður við æfingar á völlum á Caleta-svæðinu á vesturströnd Tenerife. Mörg félög úr efstu deildum karla og kvenna í Evrópu hafa nýtt sér þessa aðstöðu, þar á meðal karlalið Liverpool árin 2016 til 2018.

Hópurinn samanstendur af 27 leikmönnum, tveimur þjálfurum, sjúkraþjálfara og aðstoðarmanni. Stelpurnar í Þór/KA fóru út í margs konar fjáröflunarverkefni til að kosta ferðina og nutu ómetanlegs stuðnings frá ættingjum, vinum og stuðningsfólki félagsins, ásamt fjölmörgum fyrirtækjum sem gerðu þeim meðal annars kleift að halda glæsilegt happdrætti. Ferðin var skipulögð í samstarfi við Ferðaskrifstofu Akureyrar og flogið með Nice Air til Tenerife og heim.

„Hópurinn vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem nefnd eru hér að ofan og lögðu sitt af mörkum til að gera þessa ferð að veruleika,“ segir á vef Þór/KA.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó