KIA

Þorir ekki út úr húsi eftir árásina í Stokkhólmi

Margrét Ýr er búsett í Stokkhólmi

Lögreglan í Stokkhólmi hefur staðfest að 3 séu látnir og að minnsta kosti 8 slasaðir eftir að vöruflutningabíll ók inn í mannþröng á Drottningargötu, stærstu verslunargötu Stokkhólms, fyrr í dag. Sjónarvottar segja bílinn hafa ekið inn í mannþröngina og inn í Åhlens verslunarmiðstöðina. Talið er að um hryðjuverkaárás sé að ræða.

Mikil ringulreið ríkir í borginni eftir árásina og er fólki ráðlagt að halda sig innandyra og fjarri miðbænum. Almenningssamgöngur liggja einnig að mestu leyti niðri. Fjöldamargir Íslendingar eru staddir í Stokkhólmi og hefur Sendiráð Íslands í Stokkhólmi hvatt þá til að láta aðstandendur vita af sér.

Margrét Ýr Prebensdóttir, 26 ára Akureyringur búsett í Stokkhólmi, er ein af þeim sem merkti sig örugga á Facebook í kjölfar atburðarins. Hún var rétt ókomin heim til sín þegar hún heyrði fréttir af því sem hafði gerst.

,,Þetta er rosalega skrítið og óraunverulegt, ég þori ekki út úr húsi núna þó svo ég búi í rosa öruggu og rólegu hverfi. Allir sem ég þekki eru í sjokki og maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að haga sér. Ég bjóst bara aldrei við því að þetta myndi gerast hér,“ segir Margrét Ýr í samtali við Kaffið.

UMMÆLI