Þór/KA burstaði Fylki í síðasta heimaleik sumarsins

Þór/KA fékk Fylki í heimsókn á Þórsvöll í dag í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna en leikurinn var jafnframt síðasti heimaleikur Þór/KA á þessu ári.

Það er óhætt að segja að stelpurnar hafi boðið upp á sannkallaða flugeldasýningu því Þór/KA burstaði Fylki með sex mörkum gegn engu.

Natalia Gomez kom Þór/KA yfir strax á þriðju mínútu og Hulda Ósk Jónsdóttir tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar. Næst á markalistann var Sandra Stephany Mayor en hún kom Þór/KA í 3-0 eftir rúmlega hálftíma leik og nokkrum augnablikum síðar bætti Andrea Mist Pálsdóttir fjórða markinu við.

Stelpurnar slökuðu ekki mikið á í síðari hálfleik og eftir klukkutíma leik skoraði Sandra Mayor annað mark sitt. Landsliðskonan Sandra María Jessen rak svo síðasta naglann í kistu Fylkiskvenna á 72.mínútu.

Þór/KA situr í 4.sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina en þær fara til Vestmannaeyja um næstu helgi og leika gegn ÍBV en Eyjakonur eru í 5.sæti með tveim stigum minna en Þór/KA.

sandra-maria-jessen

Sandra María setti eitt


UMMÆLI