Þór/KA ekki í vandræðum með KR

Andrea Mist átti frábæran leik í kvöld. Mynd: Thorsport

Hið ósigrandi lið Þórs/KA steig stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum í kvöld þegar liðið vann afar öruggan sigur á KR á Þórsvelli að viðstöddum tæplega 600 áhorfendum.

Þór/KA gaf tóninn strax á 4.mínútu leiksins þegar Sandra Stephany Mayor skoraði en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var aðeins fjögurra mínútna gamall þegar Hulda Ósk Jónsdóttir tvöfaldaði forystuna og varnarjaxlinn Bianca Sierra gulltryggði svo öruggan sigur heimakvenna skömmu fyrir leikslok.

Úrslitin þýða að Þór/KA er með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar en Breiðablik getur minnkað forystuna niður í átta stig á morgun þegar þær fá Hauka í heimsókn. Þór/KA þarf að innbyrða fimm stig úr síðustu fjórum leikjum sínum til að gulltryggja titilinn, að því gefnu að Breiðablik vinni alla leiki sína.

Þór/KA 3 – 0 KR
1-0 Sandra Stephany Mayor (‘4)
2-0 Hulda Ósk Jónsdóttir (’49)
3-0 Bianca Elissa Sierra (’86)

Sambíó

UMMÆLI