Þórsarar í hörkurimmu í úrslitakeppni karla í körfuknattleik

Þórsarar í hörkurimmu í úrslitakeppni karla í körfuknattleik

Meistaraflokkur karla hjá körfuknattleiksdeild Þórs er um þessar mundir í hörkurimmu við nafna sína úr Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Staðan í einvíginu er 2:1 Þorlákshafnarbúum í vil eftir þriðja leik liðanna í gærkvöldi.

Þór Þorlákshöfn vann leikinn 109-104 en næsta miðvikudag klukkan 18:15 taka Þórsarar á móti Þorlákshafnar Þórsurum í Íþróttahöllinni á Akureyri í fjórða leik seríunnar. Hægt er að lesa um leikinn í gær á vef Þórsara með því að smella hér.

Þórsarar unnu fyrri heimaleikinn í seríunni gegn Þorlákshafnarbúum og fengu þá frábæran stuðning úr stúkunni.

„Ég hef alla trú á því að heimamenn flykkist í Höllina á heimaleikinn á miðvikudaginn, enda að duga eða drepast fyrir okkar menn. Eftir að létt var á sóttvörnum mega yfir 500 manns (506, skilst mér) sækja leikinn á miðvikudaginn. Oft er þörf en nú er nauðsyn að fylla Höllina,“ segir Guðmundur Oddsson, sjálfboðaliði hjá körfuknattleiksdeild Þórs.

„Deildarkeppnin í úrvalsdeild karla hefur aldrei verið betri, jafnari eða meira spennandi en í ár. Úrslitakeppnin hefur farið frábærlega af stað og Þórsarar hafa spilað vel. Þórsarar blésu á allar hrakspár fyrir tímabilið og hafa þegar jafnað sinn besta árangur í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik en ætla sér að gera betur og fara áfram í næstu umferð,“ segir Guðmundur.

UMMÆLI