Þórsarar kjöldregnir á móti KR

korfubolti

Erfitt kvöld í Frostaskjólinu

Þórsarar heimsóttu KR í Dominos deild karla í körfubolta í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld og er skemmst frá því að segja að Þórsarar biðu afhroð.

Þórsarar voru algjörlega hræðilegir í fyrri hálfleik á báðum endum vallarins en staðan í leikhléi var 52-28 fyrir KR og nokkuð ljóst að Þórsarar þyrftu á kraftaverki að halda í síðari hálfleik til að koma til baka á þessum erfiða útivelli.

Það varð enda raunin að KR vann sigur en Þórsarar mega þó eiga að þeir gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn niður í ellefu stig með því að vinna fjórða leikhlutann 15-35.

Lokatölur 97-86 fyrir KR. Danero Thomas var stigahæstur í liði Þórs með 28 stig en hann var sá eini með lífsmarki lengi framan af. Atvinnumaðurinn í liði Þórs, Jalen Riley, skoraði ekki eina körfu í leiknum og spilaði aðeins sextán mínútur. Einkar athyglisvert og spurning hvort hann hafi verið að leika sinn síðasta leik í Þórsbúningnum.

Stigaskor Þórs: Danero Thomas 28, Darrel Lewis 24/11 fráköst, Tryggvi Snær Hlinason 12, Ragnar Helgi Friðriksson 11, Sindri Davíðsson 4, Þröstur Leó Jóhannsson 3, Ingvi Rafn Ingvarsson 2, Einar Ómar Eyjólfsson 2.

Stigaskor KR: Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 20, Snorri Hrafnkelsson 18, Brynjar Þór Björnsson 17, Cedrick Taylor 17/15 fráköst, Sigurður Þorvaldsson 12, Darri Hilmarsson 11, Pavel Ermolinskij 2.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó