NTC

Þrettán nemendur brautskráðust úr Stökkpalli hjá Símey

Ellefu af þrettán nemendum sem luku náminu Stökkpalli – að lokinni brautskráningu í SÍMEY. Mynd/simey.is

Þann 5. janúar síðastliðin brautskráði Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, SÍMEY, þrettán nemendur á aldrinum 20-30 ára úr náminu „Stökkpalli“. Námið er ætlað þeim sem hafa horfið frá námi eða eru án atvinnu. Það hófst 19. október á síðasta ári og var í 180 klukkustundir. Það byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og var unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun og Fjölsmiðjuna á Akureyri.

Jákvæð reynsla
Af orðum nemendanna við brautskráninguna mátti ráða að námið hafi gefið þeim mikið og gert sitt gagn. Einn þeirra, Berglind Ösp Viðarsdóttir, segir að námið hafi komið sér á óvart og það hafi ótvírætt hjálpað sér.
Hún eignaðist dótturina Amöndu í maí 2016 og var í fæðingarorlofi fram í nóvember það ár. Erfiðlega hefur gengið fyrir hana að fá hlutastarf því vegna litlu dótturinnar hefur hún ekki haft tök á því að vinna allan daginn. Hún hefur því verið á atvinnuleysisbótum og það var í gegnum Vinnumálastofnun sem hún fór í „Stökkpall“.

„Ég kom sjálfri mér á óvart í náminu. Ég hef lengi verið til baka en námið veitti mér og ég held okkur öllum aukið sjálfstraust. Þar hugsa ég að hópeflið hafi skipt miklu máli. Mín reynsla var mjög jákvæð og ég mæli eindregið með þessu námi. Ég tel mikilvægt að fylgja þessu áfram eftir,“ segir Berglind Ösp  á vefsíðu SÍMEY.

Að kenna nemendum á lífið

Verkefnastjóri Stökkpalls var Sólveig Helgadóttir og umsjón með náminu auk hennar hafði Aníta Jónsdóttir, verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY.

Við brautskráninguna í gær sagði Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY að reynslan af „Stökkpalli“ hafi verið afar jákvæð og upplýsti hann að námið yrði aftur í boði núna á vormisseri.

Sólveig Helgadóttir verkefnastjóri sagði að þessi vinna hafi verið sér ný en afar jákvæð og ánægjuleg reynsla. Eftir að hafa starfað í átta ár á tannlæknastofu ákvað hún að breyta til og dreif sig í markþjálfanám í SÍMEY. Hún tók grunnnámið og hélt síðan áfram og lauk framhaldsnáminu í júní á síðasta ári og starfar nú sem markþjálfi. Af hreinni tilviljun datt starf verkefnastjóra „Stökkpalls“ upp í hendurnar á henni og segist hún vera afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.

„Það hefur heillað mig að vinna með ungu fólki og í starfi mínu sem markþjálfi hef ég tekið mörg viðtöl við ungt fólk. Vinnumálastofnun bauð mér síðan að koma inn í þetta verkefni og það hjálpaði mér að segja já við því að ég hafði verið í markþjálfanámi mínu hér í SÍMEY og þekkti því þann góða starfsanda sem er hér,“ segir Sólveig.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó