Þrír einstaklingar eru inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna Covid-19. Einn einstaklingur er inniliggjandi í öndunarvél á gjörgæsludeild og tveir á Covid-19 deild sjúkrahússins. Sjúkrahúsið er á hættustigi.
Síðastliðinn sólarhring greindust 15 covid smit á Norðurlandi. Viðbragðsstjórn Sjúkrahússins á Akureyri fundar daglega og oftar ef þörf krefur.
Á vef sjúkrahússins segir að enn sem komið er hafi tekist að halda úti nánast óskertri starfsemi en að staðan sé viðkvæm og að Covid veikindin auki álagið á sjúkrahúsið. Þá hafa veikindi og sóttkví áhrif á mönnun sjúkrahússins en tveir starfsmenn eru nú í einangrun og enginn í sóttkví.
Tímabundið heimsóknarbann er á legudeildum sjúkrahússins og annar gestagangur er takmarkaður.Heimvistarleyfi legudeildasjúklinga/dagdeildasjúklinga eru takmörkuð eins og hægt er og þá einungis hugsuð til eigin híbýla í samneyti við nánustu fjölskyldu.
„Ef fram heldur sem horfir má búast við fleiri innlögnum og mun þá verða horft til frekari samdráttar í þjónustu og þá sérstaklega valkvæðum aðgerðum. Vonast er til að ekki þurfi að koma til þess,“ segir á vef sjúkrahússins.
UMMÆLI