NTC netdagar

Þröstur Guðjónsson heiðursfélagi ÍBA

Þröstur Guðjónsson heiðursfélagi ÍBA

Stjórn Íþróttabandalags Akureyrar ákvað á fundi þann 4. apríl 2022 að gera þá Þröst Guðjónsson og Hauk Guðjón Valtýsson að heiðursfélögum ÍBA. Þröstur var fjarverandi á síðasta ársþingi ÍBA þegar Haukur var heiðraður og var því heiðraður á formannafundi sem var haldinn á Greifanum síðastliðinn fimmtudag 5. janúar.

Í tilkynningu ÍBA segir:

Þröstur Guðjónsson fæddist 26. apríl 1947 á Ísafirði og ólst upp í Tangagötu 15.  Líf Þrastar hefur að miklu leyti snúist um íþróttir.  Hann hefur að öllum líkindum stundað eða þjálfað flestar íþróttagreinar, en segist þó ekki leika golf og ekki stunda hestamennsku þrátt fyrir að eiga bæði golfsett og hest!  Þröstur hefur nú verið búsettur á Akureyri í tæpa fimm áratugi. Hann starfaði þar gríðarlega mikið að íþróttamálum og rak einnig hin síðari ár eigið málningarfyrirtæki, Málningarmiðstöðina, sem hann stofnaði eftir að hann hætti kennslu eftir 25 ára störf á því sviði.

Þröstur hefur alla tíð verið mikið viðloðandi félagsmál. Hann var aðeins 17 ára þegar hann varð ritari Skíðaráðs Ísafjarðar, sem þá samanstóð af fimm skíðafélögum í bænum. Hann var einnig formaður dróttskátadeildar skátafélagsins á Ísafirði og var í hjálparsveit skáta.

Þröstur lauk námi í íþróttakennaraskólanum vorið 1970 og kláraði einnig sveinsprófið í málun á Ísafirði. Þröstur fór að hugsa sér til hreyfings um þetta leyti og flutti til Akureyrar sumarið 1971.  Þar kom hann svo sannarlega víða við en hann var m.a. formaður Íþróttabandalags Akureyrar í 20 ár, sat í stjórn körfuboltadeildar Þórs og hóf störf fyrir Skíðaráð Akureyrar 1973 og var í þeim félagsskap til 1994 og var formaður skíðaráðsins í 12 ár.

Fljótlega eftir að Þröstur flutti til Akureyrar fór hann hann að stunda fótbolta með ÍBA og körfubolta með Þór og eignaðist þar fljótt mjög góða vini.

Þröstur hefur unnið mjög mikið að íþróttum fatlaðra í gegnum árin og vann hann bæði á Akureyri og víðar um land en hann tók að sér að skipuleggja félög og íþróttamót á vegum Íþróttasambands fatlaðra.
Árið 1990 var Þröstur sæmdur gullmerki Íþróttasambands fatlaðra en gullmerkið er æðsta orða sem sambandið veitir. Einnig hefur hann verið sæmdur fleiri viðurkenningum fyrir störf sín í þágu fatlaðra og fyrir störf tengd íþróttahreyfingunni.

Þröstur er fjórði heiðursfélagi ÍBA; hinir eru Hermann Sigtryggsson, Haraldur heitinn Sigurðsson og Haukur Valtýsson.

Sambíó

UMMÆLI