Þú færð helmingi minna en á Norðurlöndunum

Sólveig María Árnadóttir skrifar:

Tíminn æðir áfram og senn göngum við til alþingiskosninga, líkt og við gerðum fyrir tæpu ári síðan. Út undan mér hef ég heyrt að fólk viti ekki hvaða stjórnmálaflokk það eigi að kjósa og margir hyggjast jafnvel ekki ætla að mæta á kjörstað. Mér finnst því rétt að ítreka það að hvert og eitt atkvæði skiptir máli og ég hvet þig til þess að taka kosningarétti þínum ekki sem sjálfsögðum hlut.

Nýlegar skoðanakannanir um þær áherslur sem virðast skipta landsmenn hvað mestu máli fyrir komandi kosningar, koma mér talsvert á óvart. Hvers vegna? Menntun kemst varla inn á lista yfir mikilvæg kosningamál. Ég hef þó þegar ákveðið að ég ætli að kjósa menntun þann 28. október. Ég hvet þig til þess að gera slíkt hið sama og mun hér stikla á stóru varðandi mikilvægi þess.

Menntun er undirstaða samfélagsins.

„Skólar eru í raun einu stofnanir samfélagsins sem geta tryggt öllum uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum.“1

Ávinningur háskólanáms er mikill fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Hann hefur bein áhrif á efnahag, gildi, þekkingu og viðhorf einstaklinga, samfélaginu til bóta.2,3 Til þess að háskólar landsins geti boðið upp á skilvirkt nám sem leiðir af sér þann ávinning sem vænst er þarf háskólakerfið að vera fjármagnað með fullnægjandi hætti.

Á Íslandi starfa 7 ólíkir háskólar. Ég er nemandi við Háskólann á Akureyri, háskóla sem býður upp á 13 námsleiðir í grunnnámi en þar af eru 7 námsleiðir sem enginn annar háskóli á Íslandi býður upp á. Sé dæmi tekið þá er Háskólinn á Akureyri eini háskólinn á landinu sem útskrifar sjávarútvegsfræðinga, fjölmiðlafræðinga, iðjuþjálfa og lögreglufræðinga.

Ef fjármagn ríkisins til háskóla á Íslandi er borið saman við háskóla á Norðurlöndunum má glögglega sjá að íslenskir háskólar eru undirfjármagnaðir. Heildartekjur háskóla á Norðurlöndunum á hvern ársnema eru að meðaltali 4,4 milljónir en 2,3 milljónir á Íslandi. Þetta þýðir að framlög til háskóla á Norðurlöndunum eru um það bil tvöfalt hærri en hér á landi, sé miðað við nemendafjölda.

Ef nemendur á Íslandi eiga að fá sambærilega þjónustu og nemendur OECD ríkjanna, með því fjármagni sem til er í íslenska háskólakerfinu í dag, þyrfti að loka öllum háskólum landsins fyrir utan Háskóla Íslands eða loka Háskóla Íslands og skilja hina háskólana eftir. Væri það sanngjarnt? Það er mikilvægt að samfélagið bjóði jafn greiðan aðgang að námi líkt og það gerir í dag. Lausnin er því ekki að loka háskólastofnunum heldur að fjármagna háskólakerfið með fullnægjandi hætti svo að háskólarnir geti áfram boðið upp á fjölbreytt nám og veitt hverjum og einum nemanda bestu mögulegu þjónustu sem völ er á.

Að lokum hvet ég þig til þess að mæta í hátíðarsal Háskólans á Akureyri í dag klukkan 16:10, þar sem opinn fundur með stjórnmálaflokkunum mun fara fram.

Greinin er hluti af átaki Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri í samstarfi við LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta vegna fjármögnunar háskólastigsins í aðdraganda Alþingiskosninga 2017. Kassamerki átaksins er #kjóstumenntun.

Heimildir
1. Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 203. Reykjavík: Höfundur.

2. Fitzgerald, H., E., Burns, K., Sonka, S., Furco, A., & Swanson, L. (2012). The centrality of engagement in higher education. Journal of Higher Education Outreach and Engagement, 16(3), 7-28.

3. Ma, J., Pender, M., Welch, M. (2016). Education Pays 2016. The Benefits of Higher Education for Individuals and Society. Sótt af http://files.eric.ed.gov/fulltext/ED572548.pdf

Sjá einnig: 

Í dag fagnar skólinn minn 30 ára afmæli sínu

Sambíó

UMMÆLI