Þunguð kona sleppur við fangelsi

Kona, sem var dæmd í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni í Héraðsstóli Norðurlands eystra, sleppur við fangelsisvist. Konan var dæmd fyrir að hafa í lok ársins 2016 hótað tveimur lögreglumönnunum og fjölskyldum þeirra lífláti auk þess sem hún gerði tilraun til að sparka í annan lögregluþjóninn á lögreglustöðinni.

Saksóknari óskaði eftir vægustu refsingu sem lög leyfa en konan sem um ræðir er þunguð. Hún játaði brot sitt skýlaust og komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að konan skuli sæta skilorði næstu 3 árin. Á þeim tíma á hún að sæta sérstakri umsjón á skilorðstímanum og fól Fangelsismálastofnun að tilnefna þann aðila.

Samkvæmt lögum um slíka umsjón skal viðkomandi meðal annars hlíta fyrirmælum umsjónarmanns um dvalarstaði, menntun, vinnu og umgengni við aðra menn og notkun tómstunda. Hún getur einnig þurft að gangast undir takmarkanir á umráðum yfir tekjum sínum eða öðru sem varðar fjárhag hennar.

Ef konan heldur skilorðið mun fullnusta refsingarinnar niður falla að þremur árum liðnum.

 

UMMÆLI