Þurfum réttar og áreiðanlegar upplýsingar um hvað gagnast og hvað ekki

Þurfum réttar og áreiðanlegar upplýsingar um hvað gagnast og hvað ekki

Hólmgeir Karlsson skrifar:

Grein Elínar Óskar Arnarsdóttur sem birtist á Kaffið.is í dag er vel skrifuð grein og með góðu og réttu hugarfari til umhverfisvitundar og góðrar hegðunar gagnvart umhverfi okkar.

En það sem gerir umræðu um loftslagsmálin oftátíðum mjög erfiða er það flóð misgóðra upplýsinga um hvað sé rétt og hvað sé gagnlegt til að bæta ástandið.

Einnig búum við við harðan áróður fyrir ýmsum aðgerðum sem eiga að gagnast, en eru kannski því miður drifnar áfram af hagsmunum einhverra aðila en ekki heildarhagsmunum og langtímaáhrifum á náttúruna. Sem dæmi má nefna að einnota er ekki endilega slæmur kostur ef rétt er að farið.

Þannig hefur það verið þekkt í áratugi að pappa mjólkurfernan hefur mun lægra umhverfisspor en margnota umbúðir eins og t.d. glerflaskan sem þarf að þrífa og er erfið í förgun og hefur stærra spor í flutningum vegna þyngdar og lögunar.

En þegar við höfum fundið jafn frábæra lausn og pappafernuna, þá hlaupum við samt eftir því sem sagt er vera kröfur markaðarins og setjum á hana plasttappa.

Ef við gætum tekið öll okkar verk og ferla, hvort sem það er tengt matvælum eða samgöngum eða iðnaði og fengið á þau raunsætt og hlutlaust mat þá ættum við auðveldara með að taka til hendinni og leggja öll eitthvað að mörkum.

Þannig leysir rafbíllinn t.d. heldur ekki málið á heimsvísu meðan meirihluti rafmagns er framleiddur í heiminum með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Eins er með blessaða skógræktina sem nú nýtir ástandið og umræðuna til að fá meira og meira fjármagn. Ekki það að skógræktin er frábær og góð á margan hátt, en hún er engin töfralausn. Við þurfum líka að geta framleitt meiri mat og það er þekkt í vísindaheiminum að kornrækt á akri gerir jafn mikið eða meira í að binda gróðurhúsalofttegundir samanborið við skógrækt.

Við þurfum líka að vinna stórvirki í meðhöndlun sorps á heimsvísu. En umfram allt annað þá þurfum við réttar og áræðanlegar upplýsingar um hvað gagnast og hvað ekki.

Sjá einnig:

Sambíó

UMMÆLI