Prenthaus

Tilboðinu í flugstöðina hafnað – Bjóða verkið aftur út

Tilboðinu í flugstöðina hafnað – Bjóða verkið aftur út

Isavia hafnaði eina tilboðinu sem barst í viðbætur og breytingar á  nýju flugstöðinni á Akureyrarflugvelli.

Fyrirtækið Húsheild ehf. í Mývatnssveit bauð 910 milljónir króna í verkið. Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, segir tilboðið talsvert yfir kostnaðaráætlun og því hafi þess vegna verið hafnað.
„Við erum nú að yfirfara útboðsgögnin og munum bjóða verkið út aftur núna í byrjun október,“ segir Sigrún.

Áætlað að hefja framkvæmdir í haust

Hönnun byggingarinnar var boðin út í fyrrasumar þar sem Mannvit og Arkís urðu hlutskörpust. Óskað var eftir tilboðum frá verktökum í byggingu flugstöðvarinnar í júní, skömmu eftir að fyrsta skóflustungan var tekin 16. júní sl.

Um er að ræða 1.100 fermetra viðbyggingu við flugvöllinn á Akureyri ásamt breytingum á núverandi flugstöð og nánasta umhverfi en áætluð heildarstærð flugstöðvarinnar eru 2.700 fermetrar. Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó