Tilkynning frá bæjarstjórn vegna frumvarps að fjárhagsáætlun

Tilkynning frá bæjarstjórn vegna frumvarps að fjárhagsáætlun

Bæjarstjórn Akureyrar sendi í dag frá sér tilkynningu á vef bæjarins vegna frumvarps að fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 sem lagt var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í liðinni viku. Til stendur að halda rafrænan kynningarfund um áætlunina 7. desember og er hann öllum opinn. Síðari umræða um fjárhagsáætlun er á dagskrá 14. desember. 

Tilkynningin frá bæjarstjórn er svohljóðandi:

Líkt og fram kemur í samstarfssáttmála bæjarstjórnar felst framtíðarsýn okkar í því að rekstur Akureyrarbæjar verði sjálfbær, að sveitarfélagið verði þekkt fyrir framúrskarandi skóla, lífsgæði og góða þjónustu með áherslu á stafrænar lausnir og íbúasamráð. Einnig að samkeppnishæfni sveitarfélagsins leiði til fjölgunar íbúa og aukinna atvinnutækifæra. Bæjarstjórn er sammála um að standa sérstakan vörð um hagsmuni viðkvæmustu hópa samfélagsins og að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Þá viljum við að Akureyrarbær verði áfram leiðandi sveitarfélag í umhverfis- og loftslagsmálum. Nú er unnið að endanlegri gerð fjárhagsáætlunar ársins 2022 þar sem þessi framtíðarsýn er leiðarstef vinnunnar.

Því er ekki að neita að það er áskorun að stíga markviss skref í átt að sjálfbærni í rekstri sveitarfélagsins samhliða því að horfa til framtíðarsýnar bæjarstjórnar. Þó teljum við fulla ástæða til að vera bjartsýn. Vinna við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs hófst í mars á þessu ári og koma fjölmargir að því verki, bæði kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins sem á miklar þakkir skilið fyrir mikilvægt framlag. Áður en við lýsum helsta inntaki þeirrar fjárhagsáætlunar sem lögð var til grundvallar fyrri umræðu er nauðsynlegt að taka fram að bæjarstjórn gerir ráð fyrir því að fjárhagsáætlun taki einhverjum breytingum á milli umræðna.

Áætluð rekstrarniðurstaða ársins 2022 er neikvæð um 672 m.kr í samstæðunni allri en gert er ráð fyrir því að rekstrarniðurstaða A-hluta verði neikvæð um ríflega 1,1 milljarð króna. Til þess að ná markmiði um sjálfbæran rekstur má með töluverðri einföldun segja að rekstrarniðurstaða A-hluta verði að vera jákvæð. Til þess að sá árangur náist þarf bæði að horfa til þess að auka tekjur og draga úr kostnaði.

Ýmsir þættir skýra þá fjárhagsstöðu sem blasir nú við. Helst ber að nefna áhrif kjarasamninga, áætlaða hækkun lífeyrisskuldbindinga og þá ákvörðun bæjarstjórnar að taka á móti börnum í leikskóla allt niður í 12 mánaða aldur. Þá verður ekki framhjá því litið að ákvarðanir ríkisvaldsins hafa oft og tíðum veruleg áhrif á rekstur sveitarfélagsins. Sem dæmi má nefna vanfjármögnun ríkisins við yfirfærslu á málaflokki fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Leiða má að því líkum að á þriðja hundrað milljónir króna vanti frá ríkinu til Akureyrarbæjar vegna verkefnisins á árinu 2022. Má því í raun segja að ríkið hafi sett fram niðurskurðarkröfu á sveitarfélagið sem því nemur. Þess utan eru of oft sett ný lög sem auka kröfur í lögbundnum málaflokkum sveitarfélaga sem hækka rekstrarkostnað, án þess að lögin hafi verið kostnaðarmetin eða rætt um hvernig eigi að skipta fjármögnun á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta telur bæjarstjórn óviðunandi.

Þrátt fyrir að hart sé í ári þá eru einnig ýmis jákvæð teikn á lofti. Íbúum hefur fjölgað um 350 það sem af er ári, yngri börn en áður fá leikskólapláss og áfram er unnið að uppbyggingu og viðhaldi félagslegra íbúða. Þá er verið er að ljósleiðaravæða Hrísey og gert ráð fyrir áframhaldandi endurbótum á grunnskólum og skólalóðum þeirra. Uppbygging er hafin í Austurbrú, að hefjast í miðbænum og á tveimur nýjum íbúðahverfum. Þá er framundan spennandi þróun og uppbygging á tjaldsvæðisreitnum við Þórunnarstræti og á Akureyrarvelli. Endurbætur á Torfunefsbryggjunni eru hafnar og fyrirhugaðar eru endurbætur á Ráðhúsinu sem miða að því að draga úr rekstrarkostnaði stjórnsýslunnar. Einnig er framundan uppbygging bæði Skautahallarinnar og á KA-svæðinu, en uppbygging á KA-svæðinu þýðir að Akureyrarvöllur verður laus til þróunar sem getur gefið 600-1.500 m.kr. í gatnagerðar- og byggingarréttargjöld.

Spyrja má hvers vegna ráðist sé í nýbyggingar og viðhald á húsnæði þegar fjárhagsstaðan er jafn þung og raun ber vitni? Því er til að svara að hér er mikilvægt að gera skýran greinarmun á rekstri, viðhaldi og fjárfestingum. Framkvæmdir sem geta dregið úr rekstrarkostnaði til lengri tíma og framkvæmdir sem geta aukið tekjur án mikils viðvarandi aukins rekstrarkostnaðar eru hluti þess stóra verkefnis að ná sjálfbærni í rekstri sveitarfélagsins. Samhliða því er mikilvægt að sinna áfram nauðsynlegu viðhaldi á eignum bæjarins, enda gæti vanfjármögnun viðhalds einfaldlega þýtt meiri kostnað í framtíðinni. Þá telur bæjarstjórn einnig nauðsynlegt að horfa ekki aðeins til hagræðingar heldur einnig til sóknar, bæði á íbúa- og atvinnumarkaði, enda þýðir fjölgun íbúa að tekjugrunnur sveitarfélagsins stækkar og innviðir nýtast betur.

Sú vinna sem fram fer í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun á milli umræðna snýst fyrst og fremst um að rýna betur þær hagræðingartillögur sem fram hafa komið frá nefndum og sviðsstjórum, en miðað við forsendur fjárhagsáætlunar í fyrri umræðu í bæjarstjórn er gert ráð fyrir því að hagræða í rekstri Akureyrarbæjar um 370 milljónir króna á næsta ári. Til þess að ná fram þeirri hagræðingu telur bæjarstjórn eðlilegt að undirstrika að taka þarf erfiðar ákvarðanir og að einhverju marki verður dregið úr þjónustu við bæjarbúa sem eðlilegt er að verði umdeilt í samfélaginu.

Við hagræðingu leggur bæjarstjórn áherslu á farveg faglegra umbóta sem skilar langtímaárangri í rekstri sveitarfélagsins. Það þýðir fyrir okkur að starfsmenn og kjörnir fulltrúar vinna sameiginlega að langtímamarkmiði um sjálfbæran rekstur og að ákvarðanir séu byggðar á ítarlegri greiningu gagna og notendamiðaðri nálgun. Þá skiptir miklu máli að leggja sérstaka áherslu á gott starfsumhverfi og vellíðan starfsfólks.

Bæjarstjórn býður alla bæjarbúa velkomna á rafrænan kynningarfund um fjárhagsáætlun sem fyrirhugað er að fari fram þann 7. desember.

Bæjarstjórn Akureyrar

UMMÆLI