Tilverur Ninnu á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg

Tilverur Ninnu á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg

Tilverur, nýjasta kvikmynd akureyrska leikstjórans Ninnu Rúnar Pálmadóttur, keppir um verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg um þessar mundir í flokki norrænna mynda. Ninna Rún segir það gífurlega mikinn heiður að vera hluti af hátíðinni.

„Gautaborgar kvikmyndahátíðin er sú stærsta á norðurlöndunum og með stærri hátíðum í Evrópu svo þetta er gríðarlega mikill heiður að vera í þessu line-uppi,“ segir Ninna í spjalli við Kaffið.is.

Tilverur er fyrsta kvikmynd Ninnu sem leikstjóri í fullri lengd. Hún leikstýrir myndinni en handritið er eftir Rúnar Rúnarsson. Áður hefur Ninna skrifað tvær stuttmyndir og gefið út.

„Ferlið var slíkt að ég fékk handritið í hendurnar vorið 2020. Þá fór í gang þróunarvinna, fjármögnun og slíkt og við hófum tökur september 2022. Við kláruðum eftirvinnslu sumarið 2023 og heimsfrumsýningin var September 2023 á alþjóðlegu Toronto kvikmyndahátíðinni. Það var magnaður heiður,“ segir Ninna en Kvik­mynda­hátíðin í Toronto, eða TIFF, er ein sú virt­asta og fjöl­sótt­asta í heimi og um hálf millj­ón gesta sæk­ir hana að jafnaði á hverju ári.

Tilverur fjallar um Gunnar, bónda sem neyðist til að flytja úr sveitinni sinni til Reykjavíkur vegna stíflugerðar og tengingu hans við 10 ára gamla Ara, blaðburadreng í nýja hverfinu. Vináttan reynist örlagavaldur fyrir þá báða.

Tilverur var opnunarmynd RIFF kvikmyndahátíðarinnar árið 2023 og í kjölfarið var hún sýnd í Sambíóum og Bíó Paradís. Síðan þá hefur hún flakkað víðsvegar um heiminn og fengið góða dóma, myndin er til að mynda með 7.6 í einkunn á imdb.com, stærsta kvikmyndavef heims.

Pegasus framleiðir myndina ásamt meðframleiðslu við Nutprodukcia í Slóvakíu og Party Film Sales í Frakklandi. Þröstur Leó Gunnarsson og Hermann Samúelsson leika aðalhlutverk ásamt Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur og Hirti Jóhanni Jónssyni.

Ninna segist hafa gaman af því að vinna í kvikmyndaiðnaðinum. Framundan hjá henni er þróun og skrif á tveimur kvikmyndahandritum og hún segir að það muni koma í ljós hvor þeirra fari síðan af stað.

„Annars nýt ég þess að kenna kvikmyndagerð, vinna á kvikmyndasettum og leikstýra minni verkefnum,“ segir Ninna að lokum.

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg hófst 26. janúar og stendur til 4. febrúar. Hér má lesa um kvikmyndina á vef hátíðarinnar.

Ljósmynd: Eva Schram


UMMÆLI

Sambíó