Prenthaus

Tókst vel að undirbúa og eiga við Covid-19 á Sak

Tókst vel að undirbúa og eiga við Covid-19 á Sak

Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir að það hafi tekist vel að undirbúa og eiga við Covid-19 faraldurinn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta kemur fram í pistli hans á vef Sjúkrahússins.

Hann segir að hefðbundin starfsemi Sjúkrahússins fari að komast í eðlilegt horf nú þegar faraldurinn virðist vera að fjara út hér á landi, í bili að minnsta kosti.

„Áhrif faraldursins á hefðbundna starfsemi sjúkrahússins sést vel þegar starfsemistölur tímabilisins janúar til apríl eru bornar saman við fyrra ár. Skurðaðgerðir eru um 430 færri eða 31%, komum á dag- og göngudeildir fækkaði um 10-35% og sama er með rannsóknir. Þá fækkaði legudögum um 14% og komur á bráðamóttöku voru um 20% færri. Það tókst vel að undirbúa og eiga við COVID-19. Það var áhlaupaverk sem tókst vel. Til hamingju með það öll,“ skrifar hann.

Í pistlinum kemur fram að áfram verði haldið að létta á aðgangstakmörkunum á næstunni en smitgát verði samt höfð í heiðri.

„Nú liggur fyrir sú áskorun að vinna upp þá þjónustu sem frestað var og er það starf komið í gang. Einnig er mikilvægt að nýta reynslu og þekkingu undanfarinna vikna til umbóta í starfi.“

Pistilinn má lesa í heild með því að smella hér.

UMMÆLI