Tökumst á við stóru málin saman

Tökumst á við stóru málin saman

Jódís Skúladóttir skrifar

Viðbrögð við hamfarahlýnun af mannavöldum er mál sem við Vinstri-græn höfum í langan tíma sett á oddinn í stjórnmálum og nú getur enginn lengur skellt skollaeyrum við. Áhrifin á Íslandi eru margvísleg og geta haft miklar afleiðingar á innviði okkar samfélaga.

Við Íslendingar höfum nú þegar kynnst afleiðingum skriðufalla, þurrka og gróðurelda og slæmum afleiðingum fyrir íbúa og atvinnulíf. Afleiðingar loftslagsvárinnar eru sýnilegar nær og fjær og við verðum að grípa til aðgerða strax.

Heimsfaraldur Covid 19 hefur sýnt okkur svo um munar hvað við getum með sameiginlegu átaki. Eins og með sóttvarnir skiptir meginmáli að hver og einn axli ábyrgð en hið opinbera þarf að leggja línurnar til að auðvelda, styrkja og hvetja fjölskyldur og fyrirtæki til aðgerða. Þannig þurfum við einnig að horfa til loftslagsvandans.

Það er ekki á færi einnar manneskju eða einnar þjóðar að leysa vandann. Þjóðir heims verða að vinna saman við að sporna gegn loftslagsvánni og besta leiðin er að byrja á því að taka til heima og vera öðrum fyrirmynd. Ávinningurinn mun skila sér margfalt til baka fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Á sama tíma og við glímum við loftslagsmálin megum við ekki gleyma því að halda utan um samfélagið okkar. Við Vinstri græn viljum tryggja réttlát umskipti með jöfnuð að leiðarljósi. Aldrei má heldur missa sjónar á baráttunni fyrir mannréttindum og jafnrétti því þar eigum við enn verk að vinna


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI