Múlaberg

Tónatröð, París og þétting byggðar

Tónatröð, París og þétting byggðar

Valtýr Kári Daníelsson skrifar:

Nú hefur fyrirhuguð uppbygging Tónatraðar á Akureyri verið talsvert í umræðunni. Fyrir þá sem ekki vita er Tónatröð gata sem kvíslast í suður út frá Spítalavegi. Göturnar liggja í brekku og eru hluti af innbæ Akureyrar. Innbærinn er elsta hverfi Akureyrar ásamt Oddeyrinni og miðbænum og eru flest hús þar frá fyrstu áratugum 20. aldar og jafnvel fyrr, meðal annars elsta hús bæjarins, Laxdalshús, sem var byggt árið 1795. Hverfið hefur rómantískan brag, enda voru mörg hús í hverfinu forsmíðuð í Noregi í sveitser stíl og seinni heimagerð hús í hverfinu hafa allavega að einhverju leyti reynt að herma eftir þeim stíl. Vegna þessa einstaka brags er hverfismyndin vernduð samkvæmt aðalskipulagi. Í hverfinu eru líka ýmsir illa nýttir reitir sem hægt væri að byggja á til að þétta byggð, og hafa fimm lóðir á Tónatröð verið skipulagðar til þess. Til viðmiðs þá hefur Akureyri í kringum 1.800 íbúa á ferkílómetra, en þröskuldurinn til að byggð sé ganganleg (þ.e. að helstu þjónustur geti verið innan göngufæris) er í það allra minnsta 3.000 íbúar á ferkílometra.

Það eru tveir meginþættir málsins sem hafa vakið sérstaka andstöðu bæjarbúa. Annar þátturinn er uppkast – í báðum skilningum – að uppbyggingunni frá SS Byggi sem gengur berlega á svig við tilskipanir aðalskipulags um að varðveita hverfisbrag, og laga um að varðveita sögulegar byggingar. Skipulagsráð virðist sömuleiðis hafa verið fúst til að hunsa þetta tvennt, að minnsta kosti þangað til úthrópið kom. En ásamt því að fara á svig við þessar reglur mistekst uppdráttinum meira að segja í sínu eigin markmiði um að veita þétta íbúðabyggð, eins og ég mun fara út í að neðan.

ojbarasta/absolutely discusting [sic]
Uppkast SS Byggis. En.: SS Byggir’s draft
eeh
Uppkast Hoffells. En.: Hoffell’s draft.

Hinn þátturinn, sem er enn mikilvægari vegna þess að hann tekur til heilinda stjórnvalda Akureyrar, er að skipulagsyfirvöld Akureyrar hnypptu í SS Byggi og tvo aðra verktaka að fyrra bragði til að fá tillögu að skipulagsbreytingu með loforði um úthlutun ef tillagan yrði samþykkt. Auðvitað hefur skipulagsráð lokaorðið í þessum málum, eins og bæjarfulltrúinn Gunnar Gíslason bendir á í Facebook færslu sinni. En það breytir því ekki að þetta sé afturábak verklag og því að lóðirnar hafi ekki verið auglýstar opinberlega með sömu skilmálum og veittir voru SS Byggi og hinum verktökunum sem var hnyppt í: að það kæmi til greina að breyta deiliskipulagi þannig að hægt væri að byggja fjölbýlishús en ekki aðeins einbýlishús. Árið 2018 lagði Júlíus frá Hoffell ehf. til að endurskipuleggja lóðirnar til að leyfa fjölbýli, en Gunnar segir að hann hafi „ekki sýnt lóðunum neinn áhuga síðan þá,“ en það ár var tillögum hans hafnað þrisvar sinnum og tekið fram að það væri vegna þess að húsin væru fjölbýlishús. En það ætti ekki að vekja neina furðu, ef hann hefði reynt aftur eftir allt það myndi maður álykta að hann skilji ekki að nei þýðir nei. Þess vegna ætti heldur ekki að vera nein furða að enginn hafði lagt til að breyta deiliskipulaginu til að leyfa fjölbýli síðan þá.

Nú er kommúnistinn ég auðvitað glaður með að hafa fjölbýli á lóðunum frekar en einbýli. En ég er líka – eins og fjölmargir aðrir – ósáttur með að í staðinn fyrir að deiliskipulagi sé fyrst breytt af skipulagsráði með samvinnu og samþykki almennings og lóðirnar síðan auglýstar opinberlega með réttum forsendum, hafi vel völdum einkareknum verktökum verið boðin forgangsmeðferð með því að þurfa ekki að keppa við verktaka almennt þó að breytingin á skipulaginu yrði sú sama. Forgangsmeðferðin teygir sig yfir allt ferlið: á meðan Hoffelli var alfarið hafnað vegna þess að tillaga hans varðveitti ekki hverfisbraginn hefur skipulagsráð eftir hinu ítrasta reynt að fá SS Byggi í uppbygginguna þrátt fyrir að eina tillagan sem þeir hafa gefið út myndi enn berlegar eyðileggja hverfisbraginn og sögulegu húsin á svæðinu.

En allavega, samkvæmt Gunnari í Facebook færslu sinni er uppkast SS Byggis „ekki í takti við umræður í bæjarstjórn,“ en að hvaða leyti hún sé ekki í takt við umræður liggur ekki fyrir (eiga þær kannski að verða ennþá mjórri, hærri og ljótari? /grín). Ekki eru til opinberar myndir af því sem SS Byggir er með núna, en miðað við færsluna fékk SS Byggir tvo mánuði til að gera uppkastið sem þeir gáfu út. Ef þetta uppkast var afrakstur tveggja mánaða vinnu gefur það alls ekki tilefni til bjartsýni um framtíðartillögur þeirra. Þó að umrætt uppkast endurspegli ekki stöðu mála núna eru alvarlegir grundvallargallar á því sem eru ekki einskorðaðir við þetta eina uppkast, heldur má finna þá ýmisstaðar í bæjum og borgum Íslands og víðar, og því er þess virði að fara nánar út í þá. Ég mun á eftir kalla þessar byggingar háhýsi, sem væri yfirleitt ekki notað fyrir lægri byggingar en 30 metrar, en ég meina það í afstæðum skilningi. Sex eða sjö hæðir væri hóflegt í París eða miðbænum, til dæmis, en sker sig gríðarlega úr í innbænum (það að byggingarnar séu í turnum ýkir líka sjónrænt hæð þeirra).

Í frétt á RÚV er haft eftir einni Höllu um uppkastið: „Mér finnst óþarfi þar sem er svona mikið pláss að þétta byggð, ég fatta ekki rökin með þessa þéttingu byggðar.“ Ég neyðist fyrst til að benda á að byggð er þétt nákvæmlega vegna þess að það sé of mikið af illa nýttu plássi til staðar, en látum það til hliðar. Niðurstöður okkar Höllu eru nokkurnveginn þær sömu, andstaða við uppkast SS Byggis af þróun á Tónatröð, en við virðumst komast að henni á ólíkan, jafnvel þveröfugan hátt. Nú er mér ekki svo heitt fyrir hjarta um spontant ummæli einhvers handahófsvalins viðmælanda sem ég vissi ekki að væri til fyrr en ég las þessa frétt að ég skrifi henni persónulegt bréf í von um að breyta skoðun hennar sérstaklega. En ég hef rekist á eiginlega sama viðhorf ýmisstaðar annarsstaðar, og tel viðhorfið vera byggt á ranghugmynd um hvað felist í þéttingu byggðar. Því langar mig að svara því viðhorfi almennt.

Reyndar vildi ég að hún væri ekki meira en bara ranghugmynd, því dæmi fortíðarinnar á Íslandi hafa oft rennt stoðum undir svo svartsýna túlkun á þéttri byggð (þó að þær þróanir hafi raunar tekist frekar illa að skapa þétta byggð, en það er önnur saga), með margra hæða reðum sem skapa enga götumynd, aftengja fólk frá götunni, varpa þunglyndisskugga á hverfið í kring, og gera manni óglatt því þeir eru svo ljótir. Uppkast SS Byggis er enn ein í röð slíkra hannana sem gefa þéttingu byggðar slæmt nafn, en þétting byggðar þarf ekki að ganga svona fyrir sig. Það þarf ekki að leita lengra en til sjálfs Íslands til að finna dæmi um góða þéttingu: Efstaleiti er vel heppnuð þétting í Reykjavík, sem og byggingarnar á Hafnarstræti 26 á Akureyri (nú er kannski umdeilanlegt af mér að flokka þær sem þéttingu, enda voru þær aldrei formlega flokkaðar sem slíkar svo ég viti til, en faktískt passa þær við skilgreininguna á þéttingu).

Þrátt fyrir það er Ísland ennþá ekki beint uppfullt af dæmum um fyrirtaks borgar- og bæjarskipulag, þannig að skoðum í staðinn borg erlendis. Tökum sem dæmi París, sem er ótvíræður gullstaðall borgarskipulagningar og byggingarlistar (ásamt Amsterdam). París er sérstaklega viðeigandi samanburður, því eins og við vitum er Akureyri París norðursins. Nú er París ein af þéttbýlustu borgum Evrópu, með í kringum 21.000 íbúa á ferkílómetra. Rifjum upp að Akureyri er með minna en einn ellefta af þeim þéttleika. En hvernig nær París svona svakalegum þéttleika? Er hún öll full af 20, 30, 40.000 hæða íbúðarblokkum? Nei, langflestar byggingar í París eru ekki hærri en sex hæðir (lægri en þrjár af blokkunum á uppkastinu!), þ.e.a.s. þær eru milli 12 og 20 metra háar, og eru oft ekki með íbúðir á neðstu hæð, heldur verslun eða aðra þjónustu. Þannig að allur þessi þéttleiki næst með sirka 5 hæðum af íbúðarhúsnæði að meðaltali. París nær nefnilega sínum þéttleika með því að sóa sem minnstu plássi áður en byggt er hærra, til dæmis með því að hafa ekki óþarflega stór bil milli húsa og með því að fórna minna plássi undir umferðareyjur, óþarflega breiðar götur og óþörf bílastæði (ekki að það sé ekki eitt einasta slíkt svæði í París, en almennt séð).

En bitnar þetta ekki á grænum svæðum? Nei, allavega þarf það ekki að gera það. Vegna þess að götur, bílastæði, umferðareyjur og asnalegir grasblettir sem enginn vill fara í lautarferð eða leika sér á og hýsa ekkert vistkerfi eru ekki græn svæði. Þegar minna plássi er sóað í þessa hluti losnar pláss fyrir skipulögð græn svæði eins og leikvelli og lystigarða sem raunverulega gagnast fólki, allt án þess að byggingar fari yfir sex hæðir (þ.e.a.s. í tilfelli Parísar, miðum kannski við þrjár eða fjórar fyrir innbæ Akureyrar). Fyrir bandarískt dæmi er Manhattan gífurlega þéttbýlt hverfi í New York, en samt gerir það pláss fyrir Central Park. Ef þétting á að fara vel er mikilvægt að líta á heildarmynd hverfisins og borgarinnar til að tryggja að það séu ennþá næg græn svæði. Hluti af þéttingu ætti til dæmis að vera að fjarlægja óþarfar götur og bílastæði til að bæta við grænum svæðum, eins og ætti að gera við Hagatorg.

Það sem meira er, þegar húsin liggja óbrotin eða tiltölulega þétt eftir götunni – en ekki í turnum Saurons með allt Mordor í kringum sig – skapast girðing2, jafnvel staðartilfinning, eða „sense of place“ á ensku. Götur með girðingu og staðartilfinningu heilla Íslendinga og Kana upp úr skónum þegar þeir fara til meginlands Evrópu, og ekki bara í stórborgum, heldur flestum bæjum og jafnvel þorpum líka. Bæði við og Kanarnir byggðum meira að segja götur með staðartilfinningu hér áður fyrr – við virðumst jafnvel vera að komast upp á lag með það aftur, þó það sé ennþá bara í einstökum tilfellum – en einhverra hluta vegna hættum við því einhverntíman á seinni hluta 20. aldar. Reyndar er það engin ráðgata í tilfelli Bandaríkjanna, þar varð þróunin vegna kynþáttahyggjustéttarhyggju og kapítalískrar græðgi og bellibragða af hálfu bíla- og olíufyrirtækja ásamt nokkurra annarra þátta, en almennar út af því að módernískur arkítektúr einblínir á bygginguna út af fyrir sig á kostnað heildarinnar sem hún er hluti af.4

En hverfum aftur til Akureyrar, hvernig á þessi umræða við um Tónatröð? Áður en við tölum um hvernig uppkastinu mistekst að þétta byggð þarf að nefna að í uppkastinu væru söguleg hús rifin fyrir byggingarnar: annarsvegar sóttvarnarhúsið frá 1905 og hinsvegar hús eftir Guðjón Samúelsson. Það ætti ekki að þurfa að taka fram að það væri algjörlega óásættanlegt (og er vonandi þegar útilokað af bæjarstjórn ef uppkastið endurspeglar ekki núverandi stöðu, en nú veit ég ekki um framvindu þeirra mála), en leyfum hverjum sem teiknaði uppkastið að njóta vafans: kannski vissi aðilinn ekki eða gleymdi að þessi hús eru sögulegar minjar.

Þess fyrir utan er uppkastið erkidæmi um lélega útfærslu á þéttingu. Uppkastið gefur nefnilega enga ástæðu fyrir því að byggja hærra en þrjár hæðir á þessum reit, ekki einu sinni frá sjónarhóli þéttingar byggðar. Ef við munum aftur eftir París þá nær hún þéttleika án yfirgengilegra háhýsa með því sóa ekki plássi, og það er aldeilis heill hellingur af sóuðu plássi á uppkasti SS Byggis! Þá hugsarðu kannski, „ó, en þurfa íbúarnir ekki eitthvað grænt svæði?“ Jú, þeir gera það og túnblettirnir á myndinni upfylla það hlutverk illa út af fyrir sig og eru algjörlega óþarfir þegar litið er á heildarmyndina.

  • Í fyrsta lagi eru þessir blettir langt frá því að vera hágæða skipulögð græn svæði. Það eru engin leikvallartæki á þeim, né er þar nokkurskonar garður. Nú er þetta bara uppkast þannig að það er óþarfi að ávíta teiknaranum fyrir að hafa þessa hluti ekki með, en jafnvel þá er óþarfi að fleiri en einn reitur sé frátekinn fyrir byggingarnar.
  • Í öðru lagi er nú þegar stórt, hágæða, skipulagt grænt svæði með þessu báðu rétt hjá öllum þessum byggingum sem kallast Lystigarðurinn. Jafnvel ef mann langar í stórt tún við veg út af einhverjum ástæðum, þá er það líka rétt hjá sjúkrahúsinu, í sirka þriggja mínútna göngufjarlægð. Og ef manni finnst Lystigarðurinn ekki nógu góður til að leika sér í þá er Brekkuskóli með fyrirtaks skólalóð í tíu mínútna göngufæri. Þar af leiðandi er í raun algjörlega óþarfi fyrir þessi hús að taka frá allt þetta pláss þegar það eru nú þegar fyrirtaks græn svæði allt í kringum þau.
  • Í þriðja lagi, jafnvel ef maður gleymir sjúkrahúsinu, Lystigarðinum og Brekkuskóla þá eru túnblettirnir sóun á plássi jafnvel innan rökheims teikningarinnar, því fyrir aftan byggingarnar er vel meira en nóg af opnu túnsvæði sem þjónar sama hlutverki og túnblettirnir myndu gera.

Ef þú varst ekki nú þegar á móti hæð húsanna myndirðu kannski segja „ó, en við þurfum þessa túnbletti, annars yrði veggur af sjö hæða háhýsum of yfirþyrmandi fyrir hverfið!“ Í fyrsta lagi eru blokkirnar nú þegar yfirþyrmandi miðað við restina af hverfinu jafnvel með túnblettunum. En þau mótmæli gera ráð fyrir að byggt yrði jafn hátt og er sýnt á uppkasti SS Byggis, en ef húsin væru aðeins þrjár hæðir (plús eða mínus ein) væru tvær samfelldar raðir3 af slíkum húsum alls ekki yfirþyrmandi, heldur þvert á móti sjarmerandi og í stíl við restina af hverfinu.

Á myndinni að neðan sést nefnilega að allar íbúðirnar sem sýndar eru á uppkasti SS Byggis komast auðveldlega fyrir á þremur hæðum með hellingi af afgangsplássi. Ef byggingarnar væru á þremur hæðum myndi það ekki einungis koma í veg fyrir að hverfisbragur væri eyðilagður, heldur myndi skapast girðing og staðartilfinning sem eru hvorugt til staðar á teikningu SS Byggis. Fyrir utan það tek ég undir með Höllu – bestu vinkonu minni sem ég hef þekkt alla ævi – að húsin á uppkastinu eru alveg forljót og myndu algjörlega rústa hverfisbraginum þó þau væru minni (þó að merkilega fáir bæjarfulltrúar hafi sett slíkt út á þær) mér verður hreinlega óglatt við að sjá teikningar af þeim. En hvað gæti komið í staðinn? Nú, innbærinn sjálfur og nærliggjandi svæði eru yfirfull af fögrum húsum sem hægt væri að líkja eftir, og langar mig sérstaklega að nefna Aðalstræti 16, Höpfnershúsið, Samkomuhúsið og Gamla skóla í MA. Tvær samfelldar raðir af slíkum samtengdum húsum myndu veita jafn mikinn eða meiri þéttleika en er á uppkastinu og myndu þar að auki vera þægilegri fyrir íbúa efstu hæða sem þyrftu aðeins að fara upp eina til þrjár hæðir í staðinn fyrir fimm eða sex.

Hlutar bygginganna yfir þremur hæðum eru litaðir og komið fyrir á þremur hæðum eða minna á auðu svæðunum. En.: The parts of the buildings exceeding three storeys are coloured and arranged in three storeys or less on the empty spaces.
Hlutar bygginganna yfir þremur hæðum eru litaðir og komið fyrir á þremur hæðum eða minna á auðu svæðunum. En.: The parts of the buildings exceeding three storeys are coloured and arranged in three storeys or less on the empty spaces.
Sambíó

UMMÆLI