Tryggvi Snær spilar ekki fyrir annað íslenskt lið en Þór næstu þrjú árin

Tryggvi Snær Hlinason besti leikmaður Þórs tímabilið 2016-2017 ásamt Benedikt Guðmundssyni, fráfarandi þjálfara Þórs.
Mynd:thorsport.is

Körfuknattleiksmaðurinn stóri og stæðilegi, Tryggvi Snær Hlinason, hefur gert nýjan þriggja ára samning við körfuknattleiksdeild Þórs en frá þessu var gengið í gær. Allar líkur eru þó á því að Tryggvi Snær leiki erlendis frá og með næsta hausti.

Þessi 216 sentimetra miðherji er eftirsóttur úr hinum ýmsu heimshornum en hann mun að öllum líkindum ganga til liðs við spænska stórliðið Valencia í sumar.

Samningur Tryggva við Þór tryggir hins vegar að ef Tryggvi kýs að bíða með atvinnumannaferilinn eða gera hlé á honum og spila á Íslandi mun hann spila með Þór á Akureyri.

,,Tryggvi er einstakur leikmaður og frábær drengur og auðvitað eru miklar líkur á því að hann haldi í atvinnumennsku í haust og í sjálfu sér vona ég að svo verði.  Ætli hann sér að þróast í rétta átt sem stór leikmaður þá verður hann að spreyta sig á meðal þeirra bestu og þá á meðal hávaxnari leikmanna en eru á Íslandi. Þessi undirritun sýnir hins vegar að hjarta hans slær með Þór og hann hefur trú á því góða starfi sem hér hefur verið unnið síðustu ár.“ segir Ágúst H. Guðmundsson, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Þórs í samtali við heimasíðu félagsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó