Túfa framlengir samning sinn við KA

Túfa og Eiríkur Jóhannsson formaður knattspyrnudeildar KA handsala samning

Srdjan Tufegdzic, eða Túfa eins og hann er alltaf kallaður, framlengdi í gær samning sinn við KA til tveggja ára. Þetta eru frábær tíðindi fyrir KA en Túfa hefur verið aðalþjálfari knattspyrnuliðsins undanfarið eitt og hálft ár.

Túfa tók við af Bjarna Jóhannssyni um mánaðarmótin júlí/ágúst sumarið 2015 og gerði harða atlögu að því að koma liðinu upp um deild það árið. Það tókst þó ekki en KA-menn þurftu ekki að bíða lengi heldur fór liðið upp um deild síðastliðið haust, undir dyggri stjórn Túfa.

Samningur Túfa við KA gildir í tvö ár til viðbótar og er þetta gríðarlegt fagnaðarefni fyrir KA-menn enda Túfa vinsæll og virtur innan félagsins. Túfa hefur lengi verið við þjálfun hjá KA en hann byrjaði að þjálfa yngri flokka meðan hann var ennþá leikmaður. Hann varð síðan aðstoðarþjálfari þegar Bjarni Jóhannsson stýrði liðinu. Túfa þjálfar ennþá 7. flokk karla ásamt meistaraflokknum og eru KA-menn mjög ánægðir með það.


UMMÆLI

Sambíó