Tveir prófessorar HA valdir í alþjóðlegt verkefniMynd: HA

Tveir prófessorar HA valdir í alþjóðlegt verkefni

Tveir starfsmenn Háskólans á Akureyri, Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti Lagadeildar og Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild , hafa verið valdar til þátttöku í Fulbright Arctic Initiative IV (FAI).

Anna Karlsdóttir, lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands varð einnig fyrir valinu. Allar voru þær sameiginlega valdar af stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og stjórn Fulbright í Bandaríkjunum, en FAI er flaggskip Fulbright á sviði Norðurskautsrannsókna.

Um er að ræða áætlun um alþjóðlegt samstarf í norðurskautsrannsóknum og munu nítján fræðimenn frá sjö löndum taka þátt í verkefninu. Í frétt á heimasíðu Fullbright segir eftirfarandi um verkefnið:

Þetta er fjórða lota FAI, en markmið áætlunarinnar er að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði Norðurskautsfræða. FAI stuðlar að þverfaglegu samstarfi þar sem mál tengd Norðurskautssvæðinu eru skoðuð með heildstæðum hætti. Áhersla er lögð á hagnýtar rannsóknir sem nýtast við að leysa sameiginlegar áskoranir. Um er að ræða 18 mánaða verkefni sem hefst haustið 2024 með þátttöku 19 fræði- og vísindamanna frá sjö ríkjum Norðurskautsráðsins. FAI er einstakt tækifæri til alþjóðlegs samstarfs í Norðurskautsrannsóknum, þar sem þátttakendur efla tengslanetið, heimsækja valin Norðurskautssvæði og vinna bæði að einstaklingsrannsóknum og sameiginlegum verkefnum. Í fyrstu tveimur lotum FAI tilnefndi Ísland einn styrkþega, tvo í þriðju lotu, en fær í fjórðu lotu úthlutað þremur sætum. Það er ekki síst vegna fjárframlags sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitir sérstaklega til Fulbright stofnunarinnar vegna verkefisins.

Unnið verður í þremur vinnuhópum sem hafa hver sitt áherslusvið: öryggismál og stjórnsýsla (Arctic Security and Governance), loftlagsbreytingar og auðlindir (Climate Change and Arctic Resources), sem Rachael og Anna munu taka þátt í, og geðheilsa og velferð (Mental Health & Well-Being), sem Sigrún tekur þátt í.

Allir fræðimennirnir þríf hafa lagt mikið af mörkum til háskólasamfélagsins á síðustu árum. Þær hafa víðtæka reynslu af alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, hafa setið í fjölmörgum nefndum og eftir þær liggja mörg ritverk á fagsviðum þeirra. Rachael lauk doktorsnámi í lögfræði frá University of Toronto árið 2004. Hún hóf störf við lagadeild Háskólans á Akureyri árið 2003 og hlaut prófessorstöðu þar 2013. Rannsóknarverkefni Rachael snýr að réttlátum umskiptum á Norðurskautinu, með áherslu á réttindi frumbyggja. Sigrún lauk doktorsnámi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2017. Hún hóf störf við Háskólann á Akureyri 2012 og hlaut prófessorsstöðu þar árið 2023. Rannsókn Sigrúnar fjallar um áföll og streitu í kjölfar misnotkunar og kynbundis ofbeldis, með áherslu á sjálfsvígsforvarnir. Anna lauk doktorsnámi félagsvísindum frá  Roskilde University árið 2012 og hefur síðan 2002 verið lektor í í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Á árunum 2015-2023 var hún í launalausu leyfi frá HÍ vegna rannsóknarstarfa fyrir Norrænu ráðherranefndina. Í rannsókn sinni skoðar Anna þróun og áhrif komu skemmtiferðaskipa á Norðurslóðir, með tilliti til loftlagsbreytinga og áhrifa á afskekktar strandbyggðir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó