UFA með 11 verðlaun á Meistaramóti Íslands


Það var vaskur hópur keppenda frá UFA sem tók þátt í Meistaramóti Íslands 11-14 ára um síðustu helgi. Alls fóru 17 krakkar ásamt þjálfurum sínum, Sonju Sif Jóhannsdóttur og Steinunni Erlu Davíðsdóttur, og fararstjórum til Hafnarfjarðar en keppnin fór fram í glæsilegu frjálsíþróttahúsi FH í Kaplakrika.

Keppendur UFA lönduðu samtals 11 verðlaunum sem skiptust í tvö gull, fjögur silfur og fimm brons. Langflestir bættu sinn persónulega árangur og er það stór sigur fyrir hvern og einn.

Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 14 ára flokki stúlkna, í 60 metra hlaupi og 60 metra grindahlaupi, þar sem hún hljóp á sínum persónulega besta tíma í báðum greinum.

Óliver Einarsson og Hrönn Kristjánsdóttir fengu bæði silfur í 600 metra hlaupi í 13 ára flokki. Andrea Björg Hlynsdóttir fékk silfur í 60 metra grindahlaupi í flokki 13 ára stúlkna og boðhlaupssveit 13 ára stúlkna fékk silfur í 4×200 metra boðhlaupi í sínum flokki.

Þrenn bronsverðlaun fengust í hástökki; Óliver í flokki 13 ára pilta, Aþena Ómarsdóttir í flokki 13 ára stúlkna og Sara Ragnheiður í 14 ára flokki stúlkna. Tvær stúlkur fengu bronsverðlaun fyrir langstökk, þær Sigrún Anna Egilsdóttir, í flokki 11 ára stúlkna, og Katrín Dóra Jónsdóttir, í flokki 13 ára stúlkna.

Framtíðin er greinilega björt hjá unga fólkinu okkar í UFA. Vonandi tekst okkur að halda vel utan um þau og bjóða þeim ásættanlegar aðstæður til áframhaldandi þjálfunar á næstu árum.

UMMÆLI

Sambíó