Umferðarljósahjörtu Akureyringa vekja athygli í Bretlandi

Umferðarljósahjörtu Akureyringa vekja athygli í Bretlandi

Rauð hjörtu á umferðarljósum, að Akureyrskri fyrirmynd sáust á Lumiere ljósahátíðinni í Durham í Englandi þar sem óhefðbundin umferðarljós vöktu athygli.

Lumiere er árleg ljósahátíð, sú stærsta sinnar tegundar í Bretlandi. Hátíðin er haldin í nokkrum borgum. Samkvæmt vef Akureyrarbæjar hafði listamaðurinn Mike Donaghy, sem starfar hjá Durham, hafði samband við Akureyrarbæ fyrir um hálfu ári til að fræðast um hjörtun í umferðarljósunum.

Jónas Valdimarsson, verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, segir að Donaghy hafi langað að prófa ljósin á hátíðinni.

„Við sendum honum hjartamátann okkar og útskýrðum hvernig þetta væri gert og hvað þyrfti að varast. Úr varð að hann fékk leyfi fyrir þessu,“ segir Jónas á vef Akureyrarbæjar.

Útkoman var ansi skemmtileg en auk þess að breyta rauða ljósinu í hjarta breytti hann því gula í broskarl og því græna í heimskort.

Í umfjöllun á vef Lumiere kemur fram að Mike hafi heimsótt Akureyri og þaðan sé innblásturinn, enda hafi hann strax tengt við hugmyndina um að nota ljós til að gleðja fólk með listaverkum á óvæntum stöðum.


UMMÆLI

Sambíó