Origo Akureyri

Umferðaröryggi í brennidepli á hverfisfundi í Síðuskóla

Umferðaröryggi í brennidepli á hverfisfundi í Síðuskóla

Öryggi gangandi vegfarenda, og þá einkum yfir Austursíðu, var í brennidepli á hverfisfundi sem haldinn var í Síðuskóla í síðustu viku. Þokkaleg mæting var á fundinn en líklega hefur veðurblíða latt fólk til fundarsetu en hvatt til hollrar útiveru. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Til umræðu voru spurningarnar tvær: 1) Hvað er best við hverfið þitt? 2) Hvað mætti betur fara?

Það sem fólk nefndi helst sem kosti við hverfið var skólalóðin við Síðuskóla, góðir göngustígar, friðsælt og barnvænt hverfi.

Þegar talið barst að því sem betur mætti fara voru áhyggjur af umferðaröryggi í Austursíðu áberandi en þar hefur umferð ökutækja aukist umtalsvert á síðustu misserum. Einnig bar til að mynda á góma að kaffihús eða veitingastað vanti í hverfið.

Niðurstöðum fundarins verður komið í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frekari úrvinnslu. Þess má geta að í burðarliðnum eru umbætur til að auka öryggi vegfarenda við Austursíðu. Vonandi verður úrlausna skammt að bíða.

Hverfafundir verða haldnir í öllum öðrum grunnskólum bæjarins og stefnt er að því að sú yfirferð klárist haustið 2024.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó