KIA

Undir yfirborðinu kraumar feðraveldið samt

Veronika Rut skrifar

Við Íslendingar erum svolítið sérstakir. Við berum höfuð og herðar yfir önnur lönd í jafnréttismálum og hreykjum okkur af því. Við þenjum brjóstkassann af stolti yfir þeim árangri sem við höfum náð, spígsporandi á milli fjölmiðla. Vissulega eigum við rétt á því að vera stolt; við höfum jú náð langt þegar kemur að þessum málum og getum og ættum að vera montin.

Aftur á móti er hins vegar kraumandi undir yfirborðinu tegund af feðraveldi sem lætur ekki þagga niður í sér. Feðraveldi sem þykir í lagi að ungur fugl taki sér kvenkyns fugl til eignar í barnamynd, feðraveldi sem leyfir nauðgunarbrandara, feðraveldi sem gefur kynferðisafbrotamönnum uppreist æru, feðraveldi sem íslenskar konur hafa fundið sig knúnar til að vekja athygli á upp á síðkastið – út um allan heim. Það er þetta samfélagslega feðraveldi, þessi hugmynd um að konan sé eign karlmannsins. Slíkur hugsunarháttur er langt frá því útdauður þó jafnaði kynjanna sé náð í lagagerðum og við skákum öðrum löndum hæglega á ákveðnum sviðum.

Það sem espar upp í þessu feðraveldi eru einmitt femínistarnir sem berjast fyrir sömu réttindum kynjanna. Þetta feðraveldi kreppir þá hnefann og ber á brjóst sér til að minna okkur á hver ræður í raun og veru. Jafnréttishreyfingin bítur til baka í baráttu sem virðist endalaus og lýjandi á líkama og sál, því í hvert sinn sem skref eru tekin fram á við, þenur þetta feðraveldi raddböndin og notar lítillækkun, smánun og úrelta hugmyndafræði í þeim tilgangi að kæfa umræðuna.

Gleymið því samt ekki þó leiðin sé löng og ströng: Við erum gosið!

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 8. mars. 

Sambíó

UMMÆLI