Ungir akureyrskir frumkvöðlar selja snyrtivörur í Akureyrarapóteki og bráðum á netinuLjósmynd: Hilmar Friðjónsson

Ungir akureyrskir frumkvöðlar selja snyrtivörur í Akureyrarapóteki og bráðum á netinu

Hópur ungra akureyrskra frumkvöðla hefur undanfarnar vikur unnið að því að framleiða snyrtivörur undir nafninu LXR. Vörurnar eru nú til sölu í Akureyrarapóteki. Ungmennin eru öll nemendur í Verkmenntaskólanum og reka saman fyrirtækið LXR sem hluta af áfanganum frumkvöðlafræði. Nemendurnir sem taka þátt eru:

Baldvin Einarsson – Fjármálastjóri

Bríet Sara Sigurðardóttir – Ritari

Gígja Sigurðardóttir – Gæðastjóri

Heiðmar Örn Björgvinsson – Sölustjóri

Hilmar Þór Hjartarson – Fjármálastjóri

Ísidór Elís Hermannsson – Markaðsstjóri

Steinar Bragi Laxdal Steinarsson – Forstjóri

Þór Reykjalín Jóhannesson – Markaðsdeild

Áfanginn gengur út á það að nemendur stofna fyrirtæki og reka það í þrjá mánuði. LXR var stofnað í janúar þegar vorönn hófst og hópurinn heldur svo suður þann 12. apríl og kynnir fyrirtækið á vörumessu í Smáralind. Áfanginn er hluti af verkefninu Ungir frumkvöðlar og hafa nemendur í framhaldsskólum um land allt stofnað sín eigin fyrirtæki sem hluta af verkefninu. Samtökin Ungir frumkvöðlar eru hluti af alþjóðasamtökum sem kallast Junior Achievement Worldwide og verður eitt fyrirtæki úr íslenska verkefninu valið til að keppa fyrir hönd Íslands í alþjóðakeppni gegn ungum frumkvöðlum frá hinum ýmsu löndum.

Steinar Bragi, forstjóri LXR, er mjög bjartsýnn á góðan árangur fyrir sunnan: „Ef ég á að segja það sjálfur þá erum við að fara að vinna þetta,“ segir hann í samtali við fréttaritara. Hann bendir á að flest fyrirtækin á vörumessunni muni hafa eina vöru til sýnis, en LXR hafi það forskot að vera með fjórar:

Andlitsserum sem veitir húðinni raka ásamt því að vinna á línum og lýti.

Augnháraserum sem styrkir augnhárin og sér til þess að þau brotni ekki og með tímanum lengir þau.

Hárolía sem styrkir hársvörðinn, þéttir hárið, eykur hárvöxt og vinnur á ýmiskonar vandamálum í hársverðinum eins og t.d. flösu, sýkingu og bólgum.

Astaxanthin belgir til inntöku. Belgirnir eru góðir fyrir liði, húð, augu og auka þol og styrk..

Nafnið LXR er stytting á orðinu laxer, en laxerolía er grunnefnið í öllum vörunum nema Astaxanthin belgjunum. Steinar segir laxerolíu algjört undraefni fyrir húðina sem sé glæpsamlega vanmetið. Hann segir það hafa verið gæðastjóra LXR, Gígju Sigurðardóttur, sem kom með hugmyndina að því að nýta laxerolíu. Hún hafði tekið eftir því að stelpur geri mikið af því að bera laxerolíu á húð sína, en enginn hafi þróað sérstakt serum með laxerolíu sem grunnefni. Steinar segir það hafa verið gatið í markaðnum sem hópurinn kom auga á og ákvað að fylla. Astaxanthin belgirnir komu svo inn í myndina aðeins seinna, en þeir eru unnir úr örþörungum og framleiddir af fyrirtækinu Algalíf hf.

Fyrirtækið Pharma Arctica á Grenivík sér um framleiðslu á hinum vörunum og segir Steinar samstarfið hafa gengið mjög vel. Það sem kom honum mest á óvart var hversu stuttan tíma það tók að koma ferlinu af stað: „Ég fann bara númerið hjá framkvæmdastjóranum þeirra og bjallaði á hann. Stuttu seinna tókum við fund og strax á næsta fundi, um viku seinna, vorum við komin með prufur. Við keyrðum prufur í svona mánuð þar til við vorum komin með þetta eins og við vilfum hafa það og pöntuðum svo pakkningar.“ Nemendurnir hönnuðu pakkningarnar sjálf, sem Steinar segir að hafi verið langt og strangt ferli en að þau séu mjög sátt við lokahönnunina.

Loks segir Steinar verkefnið hafa verið krefjandi en skemmtilegt og segir að það hafi gengið mjög vel: „Við erum komin langleiðina að því að tryggja að hluthafar fái gróða út úr þessu.“ Auk þess að selja vöruna í Akureyrarapóteki á fyrirtækið lénið lxr.is og mun vefverslun fara í loftið þar á næstu dögum. Hópurinn hefur rætt það sín á milli að jafnvel stofna kennitölu og halda rekstrinum áfram eftir að verkefninu lýkur. Steinar segir að þau hafi lagt gríðarmikla vinnu í verkefnið og séu með góða vöru í höndunum, svo það væri skrýtið að hætta bara. Enn á þó eftir að koma í ljós nákvæmlega hvert framhaldið verður. Lesendur geta fylgst með LXR á Facebook síðu þeirra með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó