Upplýsingamiðstöðin fær gæðavottun Vakans

Hulda Jónsdóttir umsjónarmaður Upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri. Mynd: Akureyri.is

Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri hefur nú hlotið gæðavottun Vakans sem er samræmt gæðakerfi ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðamálastofa stýrir Vakanum en verkefnið er unnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Nýsköpunarmiðstöð.

Kerfið er fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi.

Upplýsingamiðstöðin er landshlutamiðstöð í upplýsingaveitu ferðamanna á Norðurlandi eystra og gegnir sem slík lykilhlutverki í upplýsingamiðlun til erlendra og innlendra ferðamanna á svæðinu. Gæði, vandvirkni og samræming þjónustu og fagleg upplýsingagjöf eykur líkur á ánægju gesta og annarra þeirra sem leita upplýsinga, aðstoðar og annarrar þjónustu hjá miðstöðinni.

Upplýsingamiðstöð hefur nú verið starfrækt á Akureyri í um 35 ár. Ferðamálafélag Akureyrar setti á fót fyrstu upplýsingamiðstöðina sumarið 1982. Hún var síðan í höndum Bifreiðastöðvar Norðurlands og SBA-Norðurleiðar þangað til að Akureyrarbær tók við rekstrinum árið 2008. Straumur ferðamanna um upplýsingamiðstöðina eykst stöðugt enda er hún í alfaraleið í Menningarhúsinu Hofi.

Akureyrarstofa annast daglegan rekstur Upplýsingamistöðvarinnar en hún er kostuð af Akureyrarbæ í samstarfi við sveitarfélögin í Eyjafirði með stuðningi Ferðamálastofu. Upplýsingamiðstöðin í Hofi er opin daglega frá byrjun maí til loka september og virka daga frá október til apríl.

Nánari upplýsingar á vef Vakans.

Frétt af vef Akureyrarbæjar.

 

UMMÆLI