Vinna og vélar

Upplýsingar um snjómokstur í bænum

Snjómokstur í Kaupvangsstræti í gær.

Mikið hvassviðri og ofan koma er á Akureyri í dag. Allt skólahald hefur verið fellt niður og lögreglan hefur hvatt fólk til þess að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Á meðan er unnið að því að moka götur bæjarins og ryðja gangstéttar samkvæmt ákveðinni forgangsröðun.

Þegar óveður gengur yfir miðast þjónustan við að halda helstu stofn- og tengibrautum, strætisvagnaleiðum og aðgengi að neyðarþjónustu opnu eins og kostur er en við venjulegar vetraraðstæður gilda vinnureglur sem kynntar eru hér á eftir.

Hér að neðan eru upplýsingar af vef Akureyrarbæjar um snjómokstur í bænum:

Snjómokstur gönguleiða:
Stofnstígar svo sem göngu- og hjólastígar milli bæjarhluta fá forgang í hreinsun ásamt helstu leiðum sem liggja að skólum, leikskólum, strætóbiðstöðvum og helstu stofnunum bæjarins.

Snjómokstur gatna:
Þær götur sem njóta forgangs í snjómokstri eru stofnbrautir, helstu tengibrautir m.a. að neyðarþjónustu eins og sjúkrahúsi, lögreglu, slökkviliði, strætisvagnaleiðum og fjölförnum safngötum. Húsagötur eru ekki mokaðar nema þær séu þungfærar einkabílum eða stefni í að þær verði þungfærar og ef von er á hláku. Húsagötur og fáfarnari safngötur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru þungfærar einkabílum. Almennt er hreinsaður snjór frá innkeyrslum en við snjóhreinsun gatna er þó líklegt að það myndist einhver snjóruðningur eða kögglar við innkeyrslur sem Akureyrarbær nær ekki að hreinsa og þurfa því íbúar að sjá um það sjálfir.

Hálkuvarnir:
Þau svæði gatna sem eru hálkuvarin í bænum eru fyrst og fremst erfiðar brekkur og gatnamót. Til hálkuvarna er notað brotið malarefni sem hefur gott viðnám (kornastærð 2-6 mm). Til að minnka svifryk er fínefnið sigtað frá og einnig er efnið blandað lítillega með salti (5-7%). Saltið minnkar rykmyndun og gerir það að verkum að auðveldara er að vinna með efnið í frosti.

Sandkistur:
Sandkistur eru á nokkrum stöðum í bænum og þar mega íbúar Akureyrar taka efni til hálkuvarna, en þær eru ekki hugsaðar fyrir verktaka.

Hægt er að sjá kort sem sýnir þjónustuflokka vetrarþjónustu með því að smella hér. Hægt er að smella á i-merkið til að fá upplýsingar um flokkana, eða halda músarbendlinum yfir ? við viðkomandi þjónustuflokk til að sjá forgangsröðunina. Þá er hægt að merkja við hvern flokk fyrir sig og loka öðrum með því að haka fyrir framan flokkana.

Ábendingar og nánari upplýsingar á lager Umhverfismiðstöðvar sími 460-1212.
Netfang: olafurh@akureyri.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó